COP ON THE EDGE PART 2: THE RIDE
Þegar ég stíg út úr húsinu mínu fæ ég sting í augun af sólinni. Ég gretti mig og tek mér smók. Blæs reyknum út um nefið.
"Þetta helvíti fer illa með þig" segir Lloyd og á við sígarettuna mína.
Pussan sú. Hvílík bleyða. Ég hef lifað meira þennan morgun en hann alla sína vesælu ævi. Hvað þykist hann vita? Nýgræðingur og grænjaxl úr lögguskólanum. Blautur á bakvið eyrun. Ég vinn einsamall. Ég kynntist svona stráklingum í hernum. Bláeygðir. Litu upp til manns eins og hundar, með vonina í augunum að ég yrði þeirra bjargvættur þegar þeir lágu með iðrin úti á hrísgrjónaakrinum. 'Mamma, mamma' grétu þeir. Ég er ekki mamma, ég er lögga. Lögga með fortíð.
Ég á heima í hvítu condó við ströndina. Fyrir utan eru íturvaxnar konur á hjólaskautum og rúmbatónlist í bakgrunni. Hér kennir ýmissa grasa. Veggjakrot, glæsilegar konur og nóg af úrþvættum sem stela veskjum. Lloyd gerir sig líklegan til að setjast inn bílstjóramegin. Það tek ég ekki í mál. Ég leiðrétti hann.
"ekki svona hratt lagsmaður. Það er ég sem keyri".
Ég sest inn í fölbrúnan bílinn og ek af stað. Sólin speglast í hafinu. Ég hugsa til baka. Ung kona deyr í rigningunni. Felld af hópi leiguliða undir leiðsögn Zevallosar. Ég var skotmarkið. Hún var heima. Ég var að vinna. Blóðið...
Lloyd rífur einbeitinguna.
"Ég sagði, verðurðu að reykja inni í bílnum? Ég þarf varla að þjást líka, er það?"
Ég lít hægt á hann, klára restina af sígarettunni og blæs reykjarmekkinum framan í hann. Hann víkur sér undan. Hann tapaði þessu einvígi. Ég stilli hann út þegar hann heldur áfram. Blóðið... Það situr fastast eftir. Zevallos úrþvættið þitt. Þú munt deyja.
Rokklag kemur upp í bakgrunninum. Lögreglustöðin, vinnustaðurinn minn, er fyrir næsta horn. Þetta gæti orðið spennandi dagur.
2 Comments:
Maður er á tánum yfir að heyra næsta kafla!!
Þetta er undarlega erótískt.
Skrifa ummæli
<< Home