<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d11318911\x26blogName\x3d\x27tis+the+ballad+of+Bob\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dSILVER\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://balladofbob.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3dis_IS\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttp://balladofbob.blogspot.com/\x26vt\x3d-2569463983589778356', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe", messageHandlersFilter: gapi.iframes.CROSS_ORIGIN_IFRAMES_FILTER, messageHandlers: { 'blogger-ping': function() {} } }); } }); </script>





föstudagur, ágúst 31, 2007

Af dauðum hlutum

"Bíddu, ætlarðu ekki að faðma hann og kyssa bless?" Spurði ég Jónínu þegar hún henti seinasta draslinu úr bílnum sínum í poka. Hún horfði á mig einsog ég væri geðveikur. Þessi drusla, einsog hún kallaði hann, hafði verið henni til stöðugs ama undanfarna mánuði. Hann átti það til að drepa á sér (oftast á háannatíma) og fara ekki aftur í gang. hann var alveg einstaklega erfiður í umgengni og var svo sérlundaður að ég þorði aldrei að sitja í bílstjórasæti þessa skrímslis. Reyndar keyrði ég hann einu sinni seinasta vetur, frá kotinu okkar í Fossvoginum og í Kringluna. Að aka honum var einsog að stýra járnbrautarlest. Stífur og ónákvæmur í gírum sem gangi. Hann drapst rétt fyrir utan áfangastaðinn og ég þurfti hjálp við að ýta honum í bílastæði. Ég prísaði mig sælan að vera vel dúðaður þegar ég labbaði heim. Þessi bíll var alger taugaáfallsmaskína og Jónína hótaði honum oftar en ekki ferðalagi í brotajárnið þegar hann lék sér í 'hver deyr best' á gatnamótum Miklu- og Kringlumýrarbrautar klukkan korter yfir fimm. Hann bilaði reglulega (sem kostaði svona 30.000 kall í hvert skipti), gírkassinn lak, framdekkin voru ójöfn (annað eyddist því hraðar en hitt), kælikassinn var ónýtur og síðast en ekki síst mátti ekki keyra hann þegar heitt var í veðri því þá ofhitnaði hann og féll í yfirlið.

Fyrir nokkrum mánuðum síðan kom svo að því að drukkinn ökumaður keyrði á blessaðan rauða Peugeotinn (og nokkra aðra bíla - um hábjartan dag!) og böglaði hurðina farþegamegin þannig að það var ekki hægt að skrúfa rúðuna niður. Það hlýtur að segja ýmislegt um ástand bifreiðar þegar tryggingafélag segir það ekki borga sig að greiða fyrir skemmdir. Beyglan á hurðinni var dýrari en sjálfur bíllinn. Tryggingafélagið ákvað þá frekar að kaupa bílinn af Jónínu og koma honum fyrir kattarnef. Sem var fyrir bestu því druslan komst ekki í gegnum skoðun og Jónína átti í stöðugri hættu að vera kýld í magann af trylltum löggum með klippur á lofti. Því var það mikill léttir fyrir Jónínu að tæma ljóta rauð fyrir brottför sína til bílahimna. Þessi böglaða, skítuga, lekandi, ofheita, sí-á-drepandi ofurdrusla var loksins á leiðinni á haugana.

"Ég meina, áttu ekki eftir að sakna hans? Þið hafið átt svo margar góðar stundir saman." Spurði tilfinningaríki ég. Jónína hélt nú ekki. Þetta er bara hlutur, útskýrði hún. Ég var hlessa.

Ég elskaði eina bílinn sem ég átti, alveg einsog manneskju. Hún var einmitt einn af þessum allt-er-að bílum. Þessi rauða Ford Sierra var beygluð, stuðaralaus, erfið í gangi og umgengni og best af öllu, botninn undir farþegasætunum var ryðgaður burt. Í rigningu skvettist því vatn beint inní fóðrið og allt var á floti afturí. Ég þurfti að vera með planka á farþegasætunum svo fólk gæti setið þar. Það var meiraðsegja komin mygla í áklæðið. En hey, ég elskaði Kristínu, eins gölluð og hún var. Ég lít oft á ólíklegustu hluti sem lifandi, sem er einstaklega þroskaheft og ég geri mér grein fyrir því. Ég tek slíku ástfóstri við dauða hluti að það liggur við að ég grenji þegar glös brotna. "Skæl! Allar minningarnar!"

Jónína setti felgulykilinn i pokann með startköplunum (mikið notaðir) og keyrði alsæl með drusluna í bílapressuna. Farið hefur fé betra, hefur hún væntanlega hugsað, þessi manneskja sem lítur á dauða hluti sem ekkert annað en dauða hluti (semsagt eðlileg manneskja). Ég fór hinsvegar inn, talaði við vínylplöturnar mínar og faðmaði tölvuna.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hah, faðmaðir og talaðir við vínyl og plast, en ekki ástsæla Jónínu.

Ég skil þig, en ég skil hana líka. Hún fór með bílinn sinn í svæfingu.

12:08 e.h.  
Blogger Bobby Breidholt said...

Já. Druslan er farin til bílahimna Björn Þór minn. Þú skilur þetta þegar þú ert eldri.

12:33 e.h.  
Blogger Laufey said...

er ekki í lagi heima hjá þér eða....

10:16 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home