Cop On The Edge, part 8:
The Action Sequence
Lesið eldri hluta sögunnar í linkunum til hægri.
Myrkrið er þrúgandi. Þrúgandi eins og slæm minning um dauða og rifin innyfli í barnaafmæli. Þokan er ógnvekjandi en þó fótógenísk þegar við Doggett drepum á ljóslausum bílnum við höfnina. Híenan í Lincoln bifreiðinni hefur leitt okkur hingað. Skósveinar hans hlæja og kveikja sér í sígarettum. gerfiefnið í jakkafötunum þeirra endurvarpar tunglsljósinu. Það gerir þá auðveldari skotmörk. Loftið er mettað af slæmri lykt. Lyktinni af dauða. Blóði. Fiskislori.
Glæpamennirnir eru mjög ódulir við grimma iðju sína á almenningshöfn Los Angeles borgar. Fjölmargir verkamenn eru á iði, uppteknir við að afferma gámaskip með tilheyrandi látum. "Alltaf finnst mér athyglisvert þegar glæpamenn ráða sér verkamenn, með hjálma og allt, til að vinna iðju sína" segir Doggett lágum rómi. "Ég meina, eru þetta illir verkamenn? Hvar ræður maður þannig? Glæpahöfðingjar virðast alltaf umkringdir verkamönnum sem afferma dópskipin þeirra, reisa dópbækistöðvarnar þeirra og endurinnrétta dópeldhúsin þeirra. Og allir eru þeir með byssu innan um skrúfjárnin og hamrana, tilbúnir að skjóta löggur án fyrirvara." Doggett heldur áfram á meðan við læðumst nær. "Sko, annaðhvort er til einhver vinnumiðlun sem setur það skilyrði að maður þurfi að drepa löggur fyrir kókaínbaróna milli þess að naglhreinsa og steypa húsagrunna, EÐA að nýjir meðlimir stórragengja þurfa að sanna sig með því að bera múrsteina og stýra dópskipum á hafnarverkamannalaunum, inn á milli þess að drepa löggur og díla dóp. Getur þú útskýrt þetta fyrir mér Reed?" Ég ranghvolfi augunum.
Við horfum yfir senuna í eitt hinsta sinn. Gámaskipið er umkringt krönum, vinnutækjum og olíutunnum og glæpamennirnir hafa raðað sér upp í kringum gaspípur, rafmagnstöflur og á brún skipsins, með langt fall ofan í sjó fyrir framan sig. Tilvalið fyrir skotbardaga. Ég svitna af tilhlökkun. Doggett svitnar á efrivörinni. Væntanlega af heygulskap. "Hlustaðu hér, Doggett. Þetta er alvara lífsins. Hér er engin elsku mamma. Þetta er ekta samningurinn. Stóri tíminn. Ertu nokkuð að fara að grenja?" -"Nei, Reed" svarar Doggett á meðan han kyngir kökk, eða svo sýnist mér. "En finnst þér ekki að við ættum að hringja á liðsauka? Það eru eftir allt svona fimmtíu grávopnaðir hafnarverkamenn þarna." Ég hæ bitrum hlátri. "Ég hef verið að skjóta fimmtíu hafnarverkamenn síðan þú varst blettur í handklæði pabba þíns" -"Hvað áttu eiginlega við?" spyr Reed. -"Gildir einu. Hlustaðu hér. Þú tekur þennan til vinstri og ég tek þessa 49 til hægri. Skilið!" Doggett laumupokast úr augsýn. Ég held um byssuna mína. En áður en ég legg í hann gef mér tíma fyrir eitt flashback í viðbót um Amy... eða Sandy eða hvað sem hún hét.
Tveir menn standa og tala saman um úrslit körfuboltaleiksins í gær. Annar þeirra heldur á fjarstýringu að krana sem heldur gámi hátt yfir höfði þeirra. Skyndilega birtist ég með hjálm á höfði. Þeir sjá mig og setja sig í stellingar. "Stans! Hver fer þar!" Segir sá yngri og fleygir sígarettu. "Doyle Foremann, starfsmaður Hafnarinnar" segi ég á meðan ég fel andlitið undir deri hjálmsins. Þeir eru varir um sig þegar ég færist nær, með hendur fyrir aftan bak. "Ég var að horfa á þátt um Kaptein Kengúru þegar ég frétti af óknyttapjökkum að afferma skip af syndadufti... stemmir það?" Áður en þeir geta brugðist við þessum fáránlega (og óþarfa) leikþætti mínum hef ég brotið hálsinn á öðrum þeirra og sparkað í hjartað á hinum. Dauðir. Ég tek fjarstýringuna að krananum, miða honum og sleppi gáminum. Hann hrapar ofan á hóp manna og af einhverri ástæðu springur gámurinn í loft upp í gríðarlegri eldsprengingu. Doggett rétt nær að flýja undan eldtungunum. Það kemur á daginn að einn af gæjunum undir gáminum var sá sem Doggett ætlaði að taka. Gildir einu. Ég er í stuði.
Ég skýt þrjátíu skotum í einn. Áttatíu skotum í annan. Sextíu skotum í þann þriðja. Eftir svona tuttugu skot í viðbót skipti ég um skothylki. Blóðið sprautast úr þeim, þeir hrynja fram af stillönsum og eru baðaðir í neistaflugi. Einn dettur fram af skipinu og ofan í skrúfuna með tilheyrandi öskri og blóðugum sjó. Geggjað.
Ég læt rjúkandi magasínið detta hægt í götuna á meðan ég set næsta í. Doggett kallar á mig. "Sko, Reed. Þótt magasínið sé tómt, þá þýðir það ekki að það sé eitthvað rusl. það er dýrmætt, erfitt að fá og er hluti af byssunni. Þú eyðir 1.200 dollurum á mánuði í magasín því þú hendir þeim alltaf í götuna þegar þau eru tóm!" En ég heyri ekkert í honum því ég er að skjóta óþörfu fimmta skoti í höfuð eins hafnarverkamannsins. Svo treð ég tómu magasíninu ofan í hausgatið á honum.
Þegar það eru engir verkamenn og dópsalar í plastjakkafötum til að drepa, hlaupum við upp landganginn. Skipið er mannlaust, fyrir utan skerandi hláturinn sem bergmálar innan um gámana. Híenan er hér einhverstaðar. Ég tek upp vélbysu af þilfarinu og Doggett mundar marghleypuna. Skyndilega opnast einn gámurinn og þyrla kemur upp úr honum. Híenan situr við stýrið og ýlfrar af hlátri. Í eitt augnablik horfumst við í augu. Við skjótum á hann en allt kemur fyrir ekki. Í kyrrlátu næturmyrkrinu stöndum við bugaðir. Hann komst undan. En hann skildi eftir glaðning handa okkur. Handsprengju sem rúllar í áttina að fótum okkar. Þótt ótrúlegt sé er þessi handsprengja nógu kraftmikil til að sprenga allt skipið í loft upp. Við stökkvum út úr ógurlegum eldhnettinum og ofan í sjó. Eldurinn eldir okkur ofan í djúpið en við köfum undan logandi dauðanum.
Næst þegar við hittumst, Híena, þá verður þú ekki svona heppinn. Og Zevallos, þú ert næstur á eftir honum. Óvinalisti minn er sífellt að lengjast.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home