<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d11318911\x26blogName\x3d\x27tis+the+ballad+of+Bob\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dSILVER\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://balladofbob.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3dis_IS\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttp://balladofbob.blogspot.com/\x26vt\x3d-2569463983589778356', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe", messageHandlersFilter: gapi.iframes.CROSS_ORIGIN_IFRAMES_FILTER, messageHandlers: { 'blogger-ping': function() {} } }); } }); </script>





fimmtudagur, mars 08, 2007

Ég man rykugar plöntur

Mamma hefur unnið á sömu læknastofunni í hérumbil þrjá áratugi. Fyrir einhverjum árum flutti stofan búferlum í Mjóddina, sem er hægt og bítandi að breytast í læknastofu- og læknadóphöfuðstað borgarinnar. Þessi læknakommúna þekur alla "efri hæð" Mjóddarinnar og hefur meira að segja keilusalurinn geðþekki þurft frá að hverfa fyrir lungnadælum og gips-dufti. Þar eru læknar af flestöllum tegundum með aðsetur. Þeirra nýjastir lýtalæknar. Á jarð-levelinu eru svo eitthvað í kringum fimm apótek, eitt við hvern útgang og bíða lyfsalar þar veifandi magnýl-stílum og ilja-röspum. En áður en mömmu var pakkað í kassa með plöntunum og gömlu tímaritunum í biðstofunni og flutt í Breiðholtið voru höfuðstöðvarnar í Síðumúla. Þar fékk ég barnungur að lufsast og skoða mig um meðan mamma vann í móttökunni.



Húsið er á horni Síðumúla og Fellsmúla, beint á móti þar sem Góði Hirðirinn er í dag. Húsið var bersýnilega byggt á áttunda áratuginum og er með öll ytri einkenni skrifstofuhúsnæðis þess tíma: Taflborðsmynstur úr jarðlituðum plastflötum og hálf-spegluðum rúðum. Molin steypa, krumpuð plast-höld á hurðinni og hnefafylli af vonleysi. Sígarettustubbar og grænt/ryðgað slím niður veggina undir niðurfallspípunni í horninu. Alveg einstaklega nöturleg bygging. Þarna þurfti pabbi að skutla mér tvo daga í viku til að hangsa með mömmu í nokkra tíma eftir leikskóla.

Gangurinn var dimmur og öll gólf og tröppur voru úr dökku grjóti. Ég man enn eftir "Stofnana-ganga-lyktinni" (og finn oft í dag): blöndu af loftleysi, pappír, ryki og grút af handriðinu. Stofan var á þriðju hæð, en mamma tók aldrei lyftuna. Ég skildi hana vel, enda var þessi lyfta örugglega ein af þeim fyrstu á landinu. Þröng, hávaðasöm og væntanlega hýfð upp af múlösnum. Hún sagði mér frá ótta sínum við að festast í henni og enn þann dag í dag sýp ég kveljur innra með mér við minnstu ókyrrð í lyftuferðum.

Glerið sem skildi Læknastofuna frá ganginum var gul-leitt og með hraunáferð. "Læknastofan Síðumúla" var límt með svörtum stöfum á hurðina. Þegar inn var komið blasti við manni biðstofa. Og ég vil setja gæsalappir utan um það (og stóran staf): "Biðstofa". Ef það er eitthvað sem lætur mig hugsa um mannlegt vonleysi og níunda áratuginn þá er það þessi biðstofa sem lifir ó svo fersk (eða mygluð sko) í huga mér. Gólfið var teppalagt og loftið rykmettað eftir því. Á einum langa veggnum var dökkur viðar-panell með grafík-myndum í römmum og á veggnum á móti var strigi. Semsagt brúnt, ofið efni með strigaáferð sem var límt á vegginn. Rykið kúrði þar líka. Tímaritin ævaforn, meiraðsegja á eitís-standard. Fiskifréttir, Áfangar, Fréttaljósrit Hjartalæknafélagsins. Lestrarbirtan var ekki mikil. Latte-brún strimlagluggatjöld úr þungu hör-efni huldu þá litlu sólarglætu sem gæti skinið inn um gluggann. Band úr svona plast-perlum gat maður tosað í til að glenna upp strimlana, en ég held að það band hafi endað sína ævi þarna ó-í-tosað (nema að það sé þarna ennþá, kæmi mér ekki á óvart). Birtan kom frá flúorstöngum sem voru í ferhyrndum ljósastæðum með plast-rimlum. Eitruð birtan lýsti upp plönturnar. "Plönturnar". Þetta voru pálm-kennd fyrirbæri í viðar-klæddum boxum. Hvort þetta var lifandi eður ei man ég ekki, en laufin sliguðust undan ryki og sjúklinga-gerlum. Moldin, ef einhver mold var í boxinu, var síðan hulin með ljósleitum hraunkúlum sem ég tók stundum handfylli af og krítaði með á stétt heima.

Hurð skildi að sjúklingana og atvinnumennina. Mamma sat á bakvið gler og afgreiddi þá hjartveiku sem biðu með sixpensara í höndunum og klossa á fótunum. Ég lék mér við að teikna á bréfsefnið með áherslupennunum, hefta það saman og pota í appelsínugula frímerkjableytinga-svampinn. Stundum starði ég á skilti sem á stóð, "Þú þarft ekki að vera klikkuð til að vinna hérna, en það hjálpar". Ég fattaði ekki kaldhæðni á þessum tíma og hló því ekki. Stundum fann ég myndir af Michael Jackson í tímariti. Þær klippti ég út og stakk í vasann. Ég þrammaði á milli grárra skjalaskápa í myrkvuðu herbergi bakatil. Eina birtan var gulleit glæta sem barst inn um gárótt gler. Afmyndaðar skuggamyndir læknanna gengu um ganginn hinumegin. Skáparnir voru fullir af litríkum skýrslum sem mamma kallaði "Sjúlnal". Mér fannst meira gaman að labba um gangana og skoða læknana að störfum.

Flestir læknarnir voru hjartalæknar og tækjabúnaður þeirra var frá seventís. Mikið um stórar vélar sem voru ýmist brúnar, ólífugrænar eða appelsínugular. Svana vann við að taka blóð úr fólki og ég sagði henni brandara meðan blóð í plastílátum hringsnerist í blóðsnúningsvélinni (blóðvinda? Gátu þeir ekki bara hrist ílátið?). Á rölti mínu sá ég menn sem voru berir að ofan taka þrekpróf með sogskálar og snúrur límdar við sig. Þeir önduðu erfiðlega með veikindahryglum. Gul birta og þessi rosalega ryk- og fúkkalykt.

Ég áttaði mig ekki á því á þessum tíma, en þetta umhverfi sogaði úr manni lífsþróttinn. Flúorljós, teppaveggir og þessir hryllilegu brúnu litir allstaðar. þegar mamma kláraði að vinna og fór með mig heim vissi ég ekki af hverju ég var alltaf þreyttur og nennti ekki að gera neitt lengi eftirá. Þetta var auðvitað bara vottur af þunglyndi eftir að hafa verið í þessu ömurlega umhverfi.

Læknastofan í Mjóddinni er stofnun af nýju tegundinni. Hún er hvít og björt, með dúkum á gólfum og með bjart og brosandi starfsfólk. En sú staðreynd að mamma tórði í Síðumúlanum í nær tuttugu ár án þess að tapa vitinu gerir hana að hetju í mínum augum.

Ég er fullviss um það að þessi síðdegi sem ég eyddi í Síðumúlanum eru ástæðan fyrir því að í dag er ég með óheilbrigða þráhyggju fyrir eymdarlegri nostalgíu.


- - -

Í næsta þætti:
Ömmu-íbúðir og af hverju ég elska gluggakistur troðnar af plöntum og veggi þakta í útsaumi og ljósbláum skraut-diskum.

4 Comments:

Blogger krilli said...

Börn í OILILY og OSH-KOSH fatnaði hengja sig í plast-perluböndum. Lítil og lágstemmd eymd.

Þegar ég var ungur og skakkur gekk ég vökudreymandi að ég væri með annan fótinn í Kópavogi á þessum tíma, og hinn í Andrésblaði.

Gott-vont ...

10:04 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ótrúlega vel skrifað og flott hjá þér bró. Ég var stundum þarna líka. Renndi mér alltaf á stólnum um gangana. Það var geeeðveikt gaman.

11:40 f.h.  
Blogger Bobby Breidholt said...

Takk Ívar.

11:23 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

:) já ég á svipaðar minnigar úr skrifstofum á borgarspítalanum...eg þorði samt aldrei að pota í appelsínugula svampinn..það mátti ekki.

2:58 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home