<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar/11318911?origin\x3dhttp://balladofbob.blogspot.com', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>





föstudagur, nóvember 10, 2006

FÁRVIÐRISFREGNIR!

Fréttaskot úr ofsaveðrinu frá neyðar-rokbyrgi
veðurathugunarstöðvarinnar í Breiðholti.

Ofsaveður 2006™ hefur þegar heimt líf þriggja garðhúsgagna. Sextíu björgunarsveitarmenn eru á sólarhringsvakt við að aðstoða borgara sem eru á heljarþröm eftir þjösnarvald byljarins. Vindkviðurnar nálgast fimmtán metra á sekúndu.

Tímalínan hingað til:

04:00
Gömul hjón vakna við óhljóð utan við gluggann. Var þar tóm
plastflaska að rúlla um sólpallinn og hringdu því hjónin í
björgunarsveitina. Með blikkandi sírenur mætti þrautþjálfuð sveitin á
vettvang og stöðvaði þessa lausagangsflösku, sem gæti á hverri stundu
orðið að lífshættulegu vopni í höndum ofsaveðursins. Reyndist flaskan
vera undan Schweppes engiferöli. Hjónin könnuðust ekki við að eiga
hana, enda drekka þau bæði Canada Dry engiferöl. Ríkisstjórnin heldur
neyðarfund.

08:22
Maður finnst meðvitundarlaus fyrir utan heimili sitt. Lék grunur á að
stormurinn hafi feikt honum um koll, jafnvel borið hann á einni
vindkviðunni úr öðru bæjarfélagi. Reyndist maðurinn drukkinn.
Björgunarsveitarmenn báru hann í rúm sitt og settu í læsta
hliðarlegu. Rokið magnast. Íbúar Reykjavíkur óttast hið versta.

13:45
Trampólín er talið í hættu. Íbúar í Melhaga kalla til
björgunarsveitamenn til að fjarlægja lauf sem höfðu safnast saman
ofan á því. Trampólínið var tjóðrað niður og var því ekki í bráðri
hættu að vera feykt burt í eilífðina, en laufin gætu gert stökksvæði
trampólínsins skítugt. Hafði ógnarmáttur stormsins verið slíkur, að
laufin höfðu rifnað af greinum trjánna og hafnað með ógnarkrafti á
trampólíninu. Allir íbúar eru óhultir. Snjókoman eykst. Matarbyrgðir
þverra. Gæludýr ókyrrast.

15:02
Neyðarblysi skotið á loft í Smáíbúðarhverfinu. Höfðu trylltir
nágrannar herjað á heimili aldraðs manns sem hafðist við í
neyðarskýli til að forðast veðurofsann. Vildu nágrannarnir fá inn í
neyðarskýlið til að bjarga lífi sínu undan hryllingi þessa dauðaroks
sem hótar lífi allra Reykvíkinga. Auk þess þurfti múgurinn að fá
dósamat, enda höfðu þeir þegar klárað allar sínar byrgðir.
Björgunarsveitarmenn ruddust inn í skýlið til að leita sjálfir
skjóls. Glundroði á götunni. Gæludýr étin.

17:00
Reykjavík er ei meir. Höfuðborg Íslands hefur verið jöfnuð við jörðu
af trylltum ofsa ógnarveðursins. Ásatrúarfélagið lýsir yfir
Ragnarökum úr neðanjarðarbyrgi sínu. Frosin lík hinna látnu fjúka um auðar göturnar eins og plastpokar í golu. Neyðarsending Ríkisútvarpsins hættir að nást á langbylgju. Hinir fáu sem enn lifa
eru fastir undir rústum heimila sinna. Börn étin.

Loksins hefur veðrið sem við höfum storkað svo lengi náð
yfirhöndinni. Íslendingar héldu að veðrið gæti verið tamið og að
kuldinn yrði fældur frá með Goretexi og lopasokkum. Hroki okkar og
drambsemi hefur kostað okkur lífið. Guð veri með þeim sem eftir lifa.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

enginn Nikkabar í kvöld s.s?

8:33 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

hahahah OMG þú ert svo fyndin, je minn,ég var með fiðring í maganum allan timann sem ég var að lesa þetta og hló upphátt,meira meira meira ég vil meir!

8:35 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home