<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar/11318911?origin\x3dhttp://balladofbob.blogspot.com', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>





föstudagur, október 05, 2007

Slappaðu af

Næst þegar þér finnst grimm örlögin og ljótt mannkynið vera á móti þér, regn- og tárvotur horfandi á eftir hlýjum strætó brunandi burt án þín, ekki missa alla von. Það eru til sálir sem eiga það verra en þú. Eins hryllilegt og lífið kann að virðast, þá komast þín smávægilegu óþægindi og pirringur ekki í hálfkvisti við stórkostlegar hrakfarir Guillaume le Gentil.


Nágranni okkar í sólkerfinu, Venus, á það til að brölta á milli okkar og sólarinnar. Þetta gerir hann tvisvar með átta ára millibili, á aldarfresti. Til dæmis kom hann síðast á milli sólar og jarðar árið 2004, mun endurtaka leikinn 2012 en mun ekki gera það aftur fyrr en árið 2117. Þið skiljið hvert ég er að fara.

Vísindamenninu Edmond Halley (sem halastjarnan er skírð eftir) kom það til hugar að með því að reikna saman nokkra punkta á þessu ferðalagi Venusar frá mismunandi stöðum á jörðinni væri hægt að finna fjarlægð jarðar frá sólu og um leið reikna út fjarlægðina frá okkur til hinna reikistjarnanna. Ekki spyrja mig um smáatriðin eða stærðfræðina, svona virkar þetta bara. Því miður lifði Halley ekki að sjá þetta kosmíska fyrirbæri, en næst þegar Venus kíkti á rúntinn, árið 1761, var heimurinn tilbúinn.

Hin franski Guillaume le Gentil var einn þeirra fjölmörgu vísindamanna sem lögðu af stað til hundrað mismunandi staða á jörðinni til að sjá skrípaleikinn. Hann var galvaskur og lagði af stað ári fyrir tímann til að sjá sjónarspilið á Indlandi, en eftir rosalegt vesen og tafir var hann enn úti á sjó þegar Venus fór framhjá sólinni. Þar sem maður getur ekki tekið svona mælingar á skipi sem kastast til og frá, var tækifærinu klúðrað.

Le Gentil hafði greinilega ekkert betra að gera næstu átta árin, því hann ákvað að halda ferð sinni áfram og fylgjast bara með næsta umgangi, árið 1769. Með átta ár til að undirbúa sig, setti le Gentil upp fyrsta flokks athugunarstöð. Hann stillti og endurstillti búnaðinn og hélt öllu í fullkominni biðstöðu. Restinni af tímanum eyddi hann í að greiða skeggið sitt eða eitthvað.

Þegar 4. júní 1679 rann loksins upp vaknaði le Gentil við glampandi sólskin og heiðskýran himinn. En um leið og Venus hóf göngu sína, tróð lítið ský sér framfyrir, einsog Björk í röðinni á Sirkus og huldi sólina nákvæmlega eins lengi og á ferðalaginu stóð: Þrjá klukkutíma, fjórtán mínútur og sjö sekúndur.

Le Gentil var skilanlega nokkuð miður sín, en var stóískur og pakkaði dótinu sínu saman í kyrrþey. Hann hélt í langferðina til næstu hafnar en á leiðinni smitaðist hann af blóðkreppusótt, sem er grafalvarlegur iðrasjúkdómur sem lýsir sér með óstöðvandi, blæðandi niðurgangi. Í heilt ár lá hann á sjúkrabeðinu og var oftar en ekki við dauðans dyr.

Okkar maður var enn veikburða þegar hann staulaðist loksins á lappir og kom sér um borð í skip á leið til Evrópu. Einsog venjan er orðin í þessari sögu var ferðin allt annað en róandi sigling. Skipið lenti í gríðarlegum fellibyl undan ströndum Afríku og le Gentil þeyttist kúkandi um þilfarið með lífið í lúkunum.

Guillaume le Gentil komst loksins heim til Frakklands eftir að hafa sóað ellefu og hálfu ári af ævi sinni í leiðangur sem skilaði engu nema sjóveiki, leiðindum og þreyttum bossa. En þetta er ekki búið enn: Hann hafði í fjarveru sinni verið skráður látinn. Annar maður hafði verið ráðinn í stöðu hans við Vísindaakademíuna, konan hans hafði gifst öðrum manni og ættingjar hans höfðu í syngjandi sveiflu eytt aleigu hans í vitleysu.

Hananú. Líður þér ekki bara betur núna?


PS-
Þú getur lesið um le Gentil og aðrar vísindalegar hrakfarir sem og sköpun alheimsins og allt sem honum tengist í bókinni A Short History of Nearly Everything eftir Bill Bryson.

PS2-
Já, og fjarlægðin til sólarinnar eru tæpir 150 milljón kílómetrar.

2 Comments:

Blogger Le Decadence said...

astrology.com / astrologycom.com
Eru ástæður þess að ég fer alltaf framfyrir á Sirkus :)

5:35 e.h.  
Blogger Bobby Breidholt said...

Þú ert auðvitað svo yndisleg, Björk mín, að þú kæmist sko framfyrir hvaða röð sem er.

5:45 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home