<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar/11318911?origin\x3dhttp://balladofbob.blogspot.com', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>





sunnudagur, júní 19, 2005

Dynskógar

Afi minn Jón Þórðarson kaupmaður byggði Dynskóga með berum höndum árið 1951. Á þeim tíma var þetta kjörinn staður fyrir sumarbústað, nálægt Reykjavík en samt nægilega afskekkt. Þegar maður gengur á milli fimmtán metra hárra grenitrjánna í dag mætti einmitt halda að maður væri staddur í einhverjum skógi lengst úti í sveit. Maður þarf bara að labba aðeins upp í hlíðina til að sjá Árbæinn handan við Rauðavatn og Suðurlandsveginn. Á síðustu misserum hefur krönunum fjölgað á sjóndeildarhringnum og sífellt bætast við háar blokkir sem ekki voru þarna áður. Núna síðast eru Kópavogurinn og Grafarholtið hægt og bítandi að umkringja þessa tvo hektara. Gapandi skurður liggur þvert yfir landslagið við lóðarmörkin, þar er verið að leggja ljósleiðara yfir í Grafarholtið. Þegar ég var lítill eyddum við stórum hluta sumarfrísins í Dynskógum. Það var hvorki rafmagn, hiti eða rennandi vatn, en við redduðum því. Það var kamar á bakvið, tunna utan á húsinu til að safna vatni og þegar það var kalt á kvöldin var kveikt á gasmiðstöðinni. Mér er enn í fersku minni að vera að leika mér einhversstaðar á milli trjánna og vera kallaður í mat. Það var oftast grillað á pallinum og svo farið í göngutúr um stykkið með lukt í hönd. Stundum leit hvít kanína í heimsókn. Svo sofnaði maður við hljóðið í vindinum í trjánum.

Þegar byggðin færðist sífellt nær fórum við að vera vör við að óboðnir gestir voru farnir að venja komur sínar inn á landið okkar. Bjórdósir og þvíumlíkt voru oft liggjandi á pallinum og stundum hafði verið skotið með loftbyssum í hlerana fyrir gluggunum. Pabbi reyndi eins og hann gat að laga hlerana og negla betur fyrir hurðina, en stundum komust þeir inn og svöluðu skemmdarverkafýsn sinni. Ég hef nokkrum sinnum farið í Dynskóga með vinum og kunningjum og haldið smá partý á landinu. Stundum tjaldað yfir nótt. Á nokkrum þannig náttúruteitum komu skemmtanaglaðir Árbæjingar inn á landið, greinilega með það í huga að brjótast inn og gera sér glaðan dag eins og þeir voru víst vanir. Þeir voru oftast fljótir að koma sér annað þegar þeir sáu okkur þarna. Við förum þangað sjaldan í dag, Dynskógar eru núna staður til að fara á og slappa af í pínu stund. Að ganga um landið, rifja upp minningar og eignast nýjar. Til dæmis er hamsturinn minn sálugi, Janus grafinn í einum lundinum.

Hlerar fyrir hurðum og gluggum eru lítil vörn gegn þeim sem eru staðráðnir í að komast inn. Fyrir tveimur vikum síðan voru hlerarnir brotnir niður og mikið partý var haldið í gamla bústaðnum. Djammið var svo mikið að eldur náði að kvikna í gömlum sófa og Dynskógar brunnu til kaldra kola. Slökkviliðið gat lítið gert nema að koma í veg fyrir að eldurinn næði að læsa sig í trén í kring. Einn af unglingunum sem höfðu átt sök á eldinum fannst ekki, og var því gerð mikil leit að honum. Jafnvel var óttast að hann hafi dáið áfengisdauða einhvers staðar inni í bústaðnum. Hann fannst reyndar á einhverju vappi á landinu, sauðdrukkinn.

Við höfum lengi haldið í vonina að Dynskógar fái að vera í friði, en eftir þetta er lítið annað hægt að gera en að gefa undan , selja borginni landið og kaupa annað einhversstaðar lengra í burtu, þar sem við getum verið í friði fyrst um sinn.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég finn til með þér Bjössi. Skil alveg hvernig þér líður.
Til fjandans með skemmdarvarga.

Ragnar Freyr
www.onrushdesign.com

9:57 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Og til fjandans með fokkíngs unglinga.

Ef unglingur myndi meiða okkar bústað þá myndi ég drep'ann.

4:06 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home