<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar/11318911?origin\x3dhttp://balladofbob.blogspot.com', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>





mánudagur, febrúar 05, 2007

Klink og Blank

Hver eru algengustu persónueinkenni spilafíkla?

1. FLÓTTI frá og HÖFNUN á raunveruleikanum er einkennandi fyrir flesta spilafíkla. Þar af leiðir að þeir flýja inn í draumaveröld þar sem stórir vinningar gera þeim kleift að öðlast lífsgæði sem ella væru ekki á færi þeirra.

2. TILFINNINGALEGT ÓÖRYGGI. Spilafíkill er aðeins í tilfinningalegu jafnvægi þegar hann er að spila. Það er algengt viðkvæði spilafíkla sem komið hafa til meðferðar að þeim hafi hvergi liðið vel nema við spilaborðið, eða í þeirri spennuvímu sem gott veðmál veitir þeim.

3. VANÞROSKI. Þrá eftir lífsgæðum án tilkostnaðar er einkennandi fyrir spilafíkla. Margir meðlimir í Gamblers Anonymous í Bandaríkjunum gangast nú við því að þeir hafi þráast við að fullorðnast og forðast að axla ábyrgð þar til þeir læknuðust af spilafíkn sinni. Þeim fannst innst inni að þeir gætu forðast ábyrgð og þroska með því að ,,snúa á kerfið" og vinna stórar summur við spilaborðið.

Einnig virðast spilafíklar hafa sterka þörf fyrir að leika "stóra karla" og þeir verða að hafa á tilfinningunni að þeir séu valdamiklir og skipti miklu máli í samfélaginu. Spilafíkillinn er tilbúinn að gera nánast hvað sem er, jafnvel þótt það sé ósiðlegt eða ólöglegt, til að viðhalda ímynd sinni.


af Spilafíkn.is


Ég hef alltaf verið forvitinn um líf spilafíkla, hvaða hugsanir séu í höfði skuggamyndanna sem ég sé inn um myrkan gluggann á Gullnámunni þegar ég geng þar framhjá snemma á virkum dögum.

Löngum taldi ég spilafíkla lægstu sort fíkla. Ég sagðist skilja lið sem væri háð kóki eða búsi, það fengi að minnsta kosti smá djamm út úr fíkn sinni. Það var bara ofar mínum skilningi hvernig fólk gat dælt (í sumum tilvikum) tugmilljónum ofan í vél sem er forstillt til að leyfa ekki vinninga.

Athugum þetta nánar: Vél. Sem er forrituð. Til að vinna ekki. Og ofan í hana dælir fólk íbúðinni, vinnunni, ærunni og síðan lífinu. Ótrúlegt.

Þegar ég vann í Videoleigu í gamladaga horfði ég upp á þessi grey hanga í spilakassanum í horninu alla vaktina mína. Ég horfði á skítugan og margnotaðan innkaupapokann í hönd þeirra og ímyndaði mér hann fullan af dósum, meira klinki og volæði. Að sjálfsögðu eru spilafíklar ekki eingöngu hlekkjaðir við spilakassa og það eru kanski fordómar að telja að svo sé. En spilafíkn er kölluð Dulda Fíknin og staðreyndin er sú að spilakassaknaparnir eru sýnilegastir spilafíkla.

Að sjálfsögðu er spilafíkn alvöru sjúkdómur og alveg jafn hörmulegur og annars konar fíkn. Jafnvel enn verri. Eftir að hafa lesið mér til um sjúkdóminn kom það mér ekki á óvart að spilafíklar eru mun líklegri til að fremja sjálfsmorð vegna fíknar sinnar en aðrir.

Eftirfarandi textabrot náði sérstaklega til mín:

Dæmigert persónueinkenni spilafíkilsins er að hann eyðir miklum tíma í að ímynda sér alla stórkostlegu og merkilegu hlutina sem hann ætlar að gera um leið og hann hefur unnið STÓRA VINNINGINN. Hann sér sig sem mikinn mannvin, dreifandi gjöfum á báða bóga. Gjarnan dreymir hann um að gefa vinum og fjölskyldu stórar gjafir af miklu örlæti.

Spilafíkillinn sér fyrir sér gerbreytt líf um leið og gæfan hefur snúist honum í vil. Allar skuldir verða úr sögunni, fín föt, skartgripir, dýr leikföng, hús og bílar eru einungis hluti af þeim unaðslegu hlutum sem spilafíkillinn hyggst veita sér og öðrum þegar stóra vinningnum hefur verið landað. Sorglegt er að enginn vinningur virðist nógu stór til að uppfylla drauma spilafíkilsins. Þegar hann vinnur eyðir hann vinningnum í að klófesta enn stærri vinning til að láta enn mikilfenglegri drauma rætast og svo koll af kolli.

Eðli fjárhættuspila er að nær öruggt er að sá sem hættir ekki að spila verður undir að lokum. Þegar spilafíklinum mistekst spilar hann af botnlausri örvæntingu uns ömurleiki tilveru hans er alger og heimur hans hrynur. Það er sorglegt en satt að fíkilinn dreymir áfram stórmennskudrauma, en upplifir aðeins meiri niðurlægingu og eymd fyrir vikið. Enginn getur sannfært hann um að hin miklu áform séu óraunsæ, hann trúir að skammt sé í að draumarnir verði að veruleika, hann verði ríkur, glæsilegur, örlátur og vinsæll. Án þessa draums er tilvera spilafíkilsins einskisverð og lífið innantómt.



Mér þykir því afar sárt að horfa upp á auglýsingar fyrir internet-spilavítið Betsson. Þar hreykir spilavítið sér af því að vera "LOKSINS Á ÍSLENSKU!" Frábært. Þá getur fólk lesið það á móðurmáli sínu að bankainnistæðan sé tæmd í slímuga fjársvikamyllu með vefsetrið skráð á einhverri eyðieyju.

Mér finnst þau viðurstyggð, þessi internetspilavíti. Núna geta fíklarnir einfaldlega sest niður, gefið upp kortanúmerið og spilað sólarhringunum saman í felum heima hjá sér þangað til allt er búið. Jesús, Liðið í Gullnámunni þarf þó að minnsta kosti að skreppa í hraðbankann af og til.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Já, lúdómanía er böl.

9:05 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

ótrúúúlega sorgleg þessi trú um stóra vinninginn og að þá borga upp allar syndir sínar, kaupa skartgripi og dýr leikföng..

en hey ég var að skoða kreisí frútz hjá þér og um daginn fékk ég svona reifaldin í vinnunni.. það er sko oft skál með ávöxtum og það var búið að taka utan af því.. ég smakkaði einmitt bara einn bita af þessu og fannst bragðlaus.. ég hefði verið miklu spenntari fyrir þessu ef ég hefið vitað hversu töff hann var með hýði!

9:39 f.h.  
Blogger Bobby Breidholt said...

Þá hefði sko verið slegið upp partý í vinnunni mar. Tryllt neon orgía sem hefði endað með keleríi og trúnó með Björgólfi inní peningageymslu.

1:26 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home