Eftir áratug af tiltölulegu hreyfingarleysi fór ég og skellti mér á leikfimikort. Ég er enginn bumbulíus, en langar þó til að sjóða af mér svona tíu kíló og að vera ögn liðugri en ryðgaða vélmannareglustikan sem ég er núna.
Jamm, næsta árið verður hægt að sjá mig puða og mása í Hreyfingu, Glæsibæ. Sveinbirni fannst það sneðug hugmynd að stökkva í einn hressan karaoke slagara á Ölveri eftir spriklið, en ég er frekar að spá í að fara alltaf á Ölver fyrst og hlaupa svo eftir fimm bjóra. Hressandi bjórsviti. Nei djók, enginn bjór fyrir mig lengur, bara hveitigrasdjús og hundasúrusafi.
Hjá Hreyfingu getur maður valið um mis dýrar aðildir. Þar sem
KREPPAN!™ er komin þá valdi ég auðvitað lang billigustu grunnaðildina, enda bið ég ekki um mikið meira en að fá að hlaupa mig til ólífis með (svitadrjúpandi) þak yfir höfðinu. Þeir sem eiga ennþá eitthvað á milli handanna í
KREPPUNNI!™ geta borgað tuttugu þúsund krónur á mánuði fyrir
Lúxus II og geri aðrir dýrar. Þeim pakka fylgja einhver ógrynni af viðbótarmunaði, meðal annars "Æfingafatnaður til afnota!" (þeim fannst þörf á að setja upphrópunarmerki þarna). Eeeeh, ef ég væri það ríkur þá myndi ég ekki láta sjá mig í margnota og margþvegnum stuttbuxum merktum líkamsræktinni sem hefur sogið í sig marga lítra af annarra manna rassasvita. Ég væri eingöngu í leður/refaskinns íþróttalausnum frá Montalban Athletics, skreyttum eðalsteinum og blikkandi púlsmælum. En sjííí, 20 þúsund! Fyrir þannig pening er ég viss um að Hreyfing lætur fólk æfa fyrir þig á meðan þú lepur ananas-smúðí í afrísku drullubaði og djúplæranuddi.
Aðstaðan þarna er svo ný og glitrandi að hún er ekki einu sinni tilbúin. Það er því soldið spes að púla rjóður og sötra litlu vatnsflöskuna sína og þerra af sér litla svitadropann sinn þegar loðnir og reykjandi verkamenn í samfesting og hjálm standa úti í stillassa og glápa á mann með fyrirlitningarsvip. "Ég skal sýna ykkur lýsisperluhommunum hvernig maður þjálfar sig: með KARLMANNS ERFIÐISVINNU!", hugsar bjarn-mennið. Hí á þig hugsa ég þá bara. Haltu áfram að naglhreinsa.
Tæknin er í öndvegi þarna. Maður þarf að skanna í sér augun þegar maður kemur inn og flókið tölvukerfi stýrir öllum skápum. Ég er að segja ykkur það, það er erfiðara að laumast inní líkamsræktarstöð heldur en Area 51. Algert Panic Room. Tækin eru líka öll nýjasta nýtt og er hvert þeirra útbúið einkaskjá með fjölvarpi, ipodsnúru og svona gulu plöggi fyrir video snúru. Ég hef reyndar ekki þorað að mæta þangað með ferðaDVDspilarann minn og tengja í það, enda er ég ekki alger douchebag. En að horfa á þátt eftir þátt af Seinfeld á færibandinu er ekki galin kenning.
Svo þegar maður er kominn með blóðbragð í hálsinn, móðu fyrir augun og púls uppá 240 er fínt að fara í bubblandi heitapottana úti í garði. Ég er samt meira fyrir gufuböð og maður er ekki svikinn þar. Vatnsgufa að hætti sundlauga og líka svona finnsk helltu-sjálfur-vatni-á-hraunið sána. Ég fer í vatnsgufuna, enda hef ég ekki styrk til að lyfta vatnsfylltri ausu eftir hamaganginn og teygjurnar. Óhugguleg sundlaugargufa er reyndar það síðasta sem maður hugsar um í eimbaðinu þarna. Gufan sjálf angar af lavender og allt er klætt með glansandi svörtum marmara þannig að manni líður einsog rússneskum mafíósa. Sé samt fyrir mér að ég muni renna á flughálum marmaranum og mölva á mér dauðþreyttan hausinn. Þá myndu sko verkamannströllin hlæja svo mikið að retturnar dyttu oní kokið á þeim.
En jæja nóg komið af plöggi fyrir Hreyfingu. Finnst núna að þau ættu að borga mér en ekki öfugt. Að minnsta kosti að leyfa mér að fara einu sinni í afrískt drullubað.