Einsog margir stend ég gáttaður (ÉG er amk gáttaður, aðrir æfasveittir) eftir orðaskak á netinu á milli svokallaðs
Stebbavalda og
DD-Unit og hennar velunnara. Eftir að hafa nagað sængina mína í svolítinn tíma hef ég fundið hvað það var við þetta alltsaman sem pirraði mig svona mikið.
Forsagan fyrir fjallgöngumenn:
Í nokkur misseri hefur Dröfn fengið hatrömm, dónaleg og Nafnlaus komment á bloggið sitt þar sem saur og hrauni er ausið yfir hana fyrir slæm tök á móðurmálinu (að hans mati). Þessi Nafnlaus skildi hvorki upp né niður í útlenskum poppkúltúrfrösum einsog "looking fierce," en í stað þess að loka bara vafranum og fá sér kleinu þá sá hann ástæðu til að moka dónaskap yfir ókunnuga manneskju, á hennar eigin bloggi (sem hann er ekki tilneyddur til að lesa) og í skjóli nafnleyndar í ofanálag. Einstaklega smekklegur gæji. En jæja: Svo hefur greinilega soðið uppúr og minn maður gat ekki setið á sér. Stebbivaldi, 54 ára gamall prófessor í heimspeki við Háskólann í Lillehammer birti
þessa huggulegu pælingu sem sæmir svo sannarlega manni á sextugsaldri.
Einsog sjá má á athugasemdum við þessa færslu hans var viti borið fólk snöggt að hringsóla um hann með rökstuddu máli og háði. Og í miðjunni stóð Stebbi örvæntingarfullur og kýldi í loftið með vindhöggum, skoðanabreytingum og kommenta-eyðingum. Andsvar Drafnar má sjá
hér ásamt skoðunum hennar lesenda, sem eru jafnt einsog hún skarpir sem svipur og með hvíthnúað greiparhald á góðri íslensku.
-- - - - - - -- - -
Ég nenni ekki að eyða fleiri orðum um Stebbavalda, enda væru sú orð tæpast skítsins á lyklaborðinu virði: leiðinleg umræða sem er komin út í algjöran farsa. Hins vegar var þetta sjónarspil dropi sem fyllti ákveðinn mæli sem ég er með innan um marga mæla innra með mér.
Ég er búinn að missa þolinmæðina fyrir Skrílslátum í Gamalmennum.
Það er auðvitað afrek að hafa komist yfir fimmtugt, sextugt eða sjötugt en að líta á það sem einhverskonar opinn bar fyrir dólgshátt, steinakast og hopp á skítugum skóm er hin argasta móðgun við sómasamlegt samfélag. Aldur virðist vera í öfugum vexti við kurteisi og tillitsemi.
Flugdólgar sem eru sveittir og trylltir, dauðadrukknir og sjálfum sér til skammar hafa alltaf vakið hjá mér furðu. "ÉG ER SEXTUGUR MAÐUR ÉG HEF LIFAÐ ERFIÐA ÆVI OG EKKI SKALT ÞÚ SEGJA MÉR HVAÐ ÉG MÁ DREKKA OG HVAÐ EKKI, ÞARNA STELPUPÍKA!" Virðist þeirra hugsun vera. Slef drýpur af skeggi. Aldrei hef ég heyrt um átján ára flugdólg.
Nýjasta nýtt eru Tjaldvagnadólgar. Tjaldstæði þar sem er 30 ára aldurstakmark (því unglingar eru alltaf svo fullir) er vakið um miðja nótt af trítilóðum kalli að spila Róllínstóns og að míga í sig af ofdrykkju. Reglur eiga ekki við hann því hann er FULLORÐINN MAÐUR og ekki söguna meir. Ég pæli í hvar þessi mörk eru, þar sem maður hættir að vera tillitsamur meðborgari og bara SKÍTTMEÐAA!
Munurinn á útihátíð og hestamóti: Ræðið.
Verst er það þegar durgar komast í internetið, einsog vaxið hefur undanfarin ár með moggabloggs-bónansa. Þessir ÓGURLEGU tuðarar og belgir hafa skyndilega fattað að þeir geta víkkað heitapotts-þrasið yfir gervalla þjóðina. og rétt einsog í heitapottinum hafa þeir mengað internetið með þvælu, dónaskap og tippaflygsum.
Það er einsog allur þroski í samskiptum sem menn hafa byggt upp yfir heila ævi hverfi einsog dögg á sundhettu þegar sest er við tölvuna ("svona tölvu já, er hægt að senda internet á þessu?") Ég skil það þegar börn fá tölvu í fermingargjöf og fara beint í að dissa Martein Skítbuxa... en menn á aldur við pabba minn??
Þetta skeytingarleysi um annað fólk gerir mig bara bumbult. Einsog Sveinbjörn var að
benda svo réttilega á, þá er:
Internetland = Alvöruland.
Ef ég sé einhvern í ljótum buxum úti á götu þá legg ég það ekki á mig að þramma til hans alveg, "Hey djöfuls shitty pants eru þetta maður! Eigðu góðan dag, eða EKKI SKO! retarrd!" Nei, ég FOKKING GLEYMI ÞVÍ, lít annað og hugsa um ostborgara. Sama með netið. Hver NENNIR þannig spontant neikvæðni og dónaskap í garð ókunnugrar manneskju?
Fólk hefur of miklar áhyggjur af æskunni. Mér finnst að auglýsingar um hegðan á netinu og samskipti við annað fólk ættu líka að beinast til gamalmenna sem kunna að meðhöndla hvorugt.