Piss-klapp
Garnir vella yfir afsteypanir af getnaðarlimum í gamalli vöruskemmu. Slímug, svört vera rífur sér leið úr úldinni vömb með ryðguðu hnífsblaði. Naktir líkamar veltast uppúr rjúkandi galli og rotnandi, gulu grasi.
Af hverju þarf allt að vera svona ógeðslegt? Nei, bíddu ég umorða spurninguna: Af hverju þurfa ALLIR að vera svona ógeðslegir? Og núna eru nemar Listaháskólans farnir að míga á hvorn annan.
Matthew Barney, Gabríela Friðriksdóttir, Damien Hirst og Rassi Prump hafa margt að svara fyrir.
OPNUNIN
Áhorfendur eru leiddir inn í myrkvað herbergi. Lyktin af marsipani, aspas og súrsuðum rúsínum fylla vit þeirra. Þau eru flest pelsaklædd og með einglirni. Innan um gaggandi mörgæsirnar eru ungir og 'hipp' listaspekúlantar. Þeir eru með gleraugu með litríkum plastumgjörðum og í strigaskóm í stíl. Þvagan hlær og klonkar í plast-hvítvínsglösum á meðan það venst myrkrinu. Skyndilega fer tilraunakennd ambíent-tónlist í gang og þvagan þagnar.
Það er kveikt á sterkum ljóskastara sem vísar beint niður á gólfið. Notuð gips og sárabindi liggja í haug undir ljósbjarmanum. Líkamsvessar renna hægt úr hrúgunni eftir gólfinu og út í myrkrið. Áhorfendur ókyrrast og af eðlishvöt lyfta þeir fótunum af hræðslu við að vera standandi í þessum illa lyktandi læk sem rennur í áttina til þeirra. Skyndilega rís nakinn kvenmaður upp úr hrúgunni. Hún er grímuklædd og á líkamanum liggja kleprar af blautum klósettpappír. Blóðið, gröfturinn og svitinn úr gipsinu og sárabindunum leka niður lærin á henni. Hún reigir sig aftur og hallar sér fram til skiptis, allt í takt við tónlistina, sem hljómar einsog ölduniður af garnagauli og höggborum.
Skerandi vélarniðurinn og iðrakvæsið í tónlistinni vekur ónot hjá eldri áhorfendunum sem halda silkihönskunum að vitum sér til að skýla sér fyrir lyktinni, sem hefur magnast eftir að hurðinni var læst á eftir hópnum. En þeir sem eru í litríku strigaskónum verða spenntir og færast nær líkamanum. Þeir kannast við sigin brjóstin og kotasælumagann frá fyrri verkum. Þetta er Jukka, annar helmingur listatvíeykisins Kleprum Fabúl sem hefur farið sigurför um heiminn. Þeir klappa lágt af spenningi og draga upp litlar videotökuvélar.
Ljóskastarinn færist frá kvenmanninum í graftarhrúgunni og til hægri. áhorfendur fylgja geislanum. Ljósið staðnæmist á hrúgu af afmælistertum af öllum stærðum og gerðum. Marsipan og rjómi, kransakökur og niðursoðnir ávextir. Blóðsyrði og nöfn á líffærum eru skrifuð með súkkulaðiskrautskrift í sumar kökurnar. "Kúkur". "Bris". "tussa". "Hringvöðvi".
Karlmaður gengur hægt inn í ljóskastarann, afturábak. Strigaskórnir klappa, þeir vita að þarna er Pettor á ferðinni, hinn helmingur Kleprum Fabúl. Pettor teygir út hendurnar og snýr sér hægt við. Hann er klæddur í fermingarkirtil. Hann lítur hægt niður á terturnar og gefur frá sér skerandi ýlfur. Hann stekkur ofan í hrúguna og baðar út öllum útlimum. Apaöskri og sláturhúsahljóðum er bætt við tónlistina. Þegar Pettor hefur breytt hrúgunni í hvítleita leðju leggst hann á bakið og gerir rjómaengla. Á meðan birtast aðstoðarmenn í svörtum samfestingum með gati í klofinu. Þeir eru allir með liminn í fullri reisn. Á meðan Pettor engist um og spangólar á gólfinu hella þeir úr plastfötum yfir hann. Pettor lyftir upp fermingarkyrtlinum og lætur gusurnar af innyflum, pissi og tjöru falla á nakinn líkama sinn. Hann er líka í fullri reisn.
Eldri áhorfendurnir reyna að komast út úr salnum, en dyrnar eru læstar að utan. Þau eru ekki að fara neitt. Þau kjökra og reyna að hringja í sína nánustu með GSM símunum. Strigaskórnir tala spenntir saman í lágum hljóðum. Þeir hrósa heiftinni og hugmyndauðginni á marghreimdri ensku. Árið '99 sáu þeir Pettor skera upp belju og skríða inn í hana. Í fyrra voru þeir á staðnum þegar Kleprum Fabúl létu tvo apa með hundaæði stunda mök fyrir framan leikskólabörn. En núna eru þeir að horfa á Pettor runka sér ofan í feni af rjóma, þvagi og mold. Þeir hafa aldrei séð annað eins. Þeir skipta um spólur í myndavélunum sínum.
Skyndilega birtist Jukka. Hún syngur gamalt finnskt leikskólalag á meðan tíðablóðið drýpur yfir Pettor. Þau stunda sameiginlega sjálfsfróun á meðan aðstoðarmennirnar hella yfir þau til skiptis mold, rjúkandi galli og úldnu grasi. Við útgangin má heyra skelfingaróp í mörgæsunum og örvæntingarfullt krafs á hurðinni. Tónlistin er ærandi og lyktin er óbærileg. Gömul kona ælir ofan í töskuna sína. Strigaskórnir færa sig nær til að missa ekki af neinu. Þeir sjúga inn um nefið eins fast og þeir geta til að upplifa tíðarblóðið sem best. Þeir eru komnir svo nálægt að rjúkandi gallið hefur myndað rakadropa á andlitum þeirra. Þeir þurrka móðuna af gleraugunum sínum og öskra á meira. Gjörningurinn nær hámarki þegar Jukka rekur upp skerandi öskur. Hún leggst á bakið, lyftir mjöðmunum upp með fótunum og af öllum krafti mígur hún út í loftið. Einn strigaskórinn fær bununa framan í sig. Verkinu lýkur þegar ljósin eru kveikt og líkamar Kleprum Fabúl eru "hreinsaðir" með skítugu vatni úr ruslapokum.
Í fondú-partýinu eftir opnunina er Kleprum Fabúl hrósað í hástert. Þau stilla sér upp fyrir ljósmyndara menningarblaðanna klædd í lopamussur og gúmmítúttur. Þau drekka kampavín, borða teriaki-kjúkling á pinna og lofa enn betra showi í hálf-tíu sýningunni.