Ljósvakar
Rás 2 er nú sæmilegust, en mér finnst svo ofsalega skrítin tónlistarstefnan þar á bæ, eða skortur á henni öllu heldur. Þeir fara úr System of a Down yfir í Jón Ólafs og enda syrpuna á fimm ára gömlu lagi með Rottweilerhundunum. Félag anarkista kemur í heimsókn og svo er skipt niður á höfn þar sem hátíðin Börnin og Hafið er í fullum gangi. Það er eitt að vera útvarp allra landsmanna en annað að vera ruglingslegur klofhugi. Alveg bipolar. Maður er strokinn með einni hendi og löðrungaður með hinni. Svo er nýja fréttastefið glatað.
Effemm fer stundum í gang en oftast (ég meina alltaf) í einhverju flippi. Mér finnst gaman að djókdýrka ömurlegheit og viti menn, stundum hitta þeir á skemmtilegt popplag sem mér þótti pínu sniðugt fyrir svona tveimur árum síðan. Svo kárnar gamanið þegar þeir gefa miða í spreytan og maður slekkur til að þvo hugann með þögn.
Ég veit ekki hvað þær eru margar, unglingarokkstöðvarnar, en Xið og Radíóx og FMrokkX forðast ég einsog að drukkna í rottupissi. Emó og ærandi gítarsóló eiga heima í Abu Grahib og Guantanamo til að pynta stríðsfanga og eru því vandamál Amnesty International, ekki mitt.
Ég hef oftast stillt á Gullbylgjuna þrátt fyrir vafasamt lagaval og óborganlega lélega kynna. "Þetta var Mæshjaróna með Knoxs (The Knack) og næst fáum við Stök inðe Middel of Jews með Bob Dylan (Stealer's Wheel)". Þeir hljóta að vera skyldir gæjanum í "Nýtt á DVD" sjónvarpsauglýsingunum sem segir "V for Van-detta" og "Matthew Makonahú (McConaughey)". En ég læt mig hafa það, þótt að fyrir hverja gersemi einsog Gerry Rafferty og America þarf maður að þola þrettán lög með Neil Diamond og 'Mandy' með Barry Manilow (eða Brandon Magalúff einsog þeir myndu eflaust bera það fram).
Ég hef leitt ykkur um nokkuð víðan völl til að komast að hinu sanna efni þessarar færslu: Síðdegisútvarp Bylgjunnar.
Þetta hlýtur að vera mest óspennandi útvarpsefni síðan 'Straujað í Beinni'. Djöfulsins tuð og ó-samræður. Þessir durgar eru bara að væflast á netinu og lesa það sem þeir sjá. "Heyrðu það var maður í Wisconsin sem var soldið óheppinn. Hann var rekinn úr vinnunni og kom heim að hundinum sínum vera að ríða konunni sinni." -"Já, ekki hans dagur," Svarar hinn bjáninn. "En opnum nú fyrir símann og leyfum hlustendum að kvarta yfir umferðinni." Alveg glæsilegt.
Hérna er það sem bar hæst í þættinum í gær:
Kynningarstef: "Niðurgangur í Gmoll" eftir Bay City Rollers.
"Komið þið öll sæl og blessuð. Reykjavík síðdegis hér með ykkur til hálf sjö í kvöld. Munið nú að keyra varlega. Hér rétt á eftir ætlum við að lesa veðurfréttir, lesa sjónvarpsdagskrána, lesa furðufréttir af netinu, lesa hvað gerðist á þessum degi af netinu og heyra í fullt, fullt af hlustendum. En fyrst er það Bubbi."
Lag og auglýsingar.
"Heyrðu, á þessum degi fyrir 35 árum kom örbylgjuofninn fyrst á markað"
"Já, örbylgjuofninn?"
"Hinn eini sanni"
"Hann er þarfaþing, örbylgjuofninn"
"Já"
"Það má poppa í honum"
"Já og hita mat"
"Það er mikilvægt að borða mat"
"Já og ekki spillir fyrir að hafa hann heitann"
"Já, þá kemur örbylgjuofninn sterkur inn. Hann er 35 ára, örbylgjuofninn"
"Heyrðu það var fleira sem gerðist á þessum degi, því á þessum degi árið 1953 gifti Henry Kissinger sig í annað sinn"
Þetta heldur áfram í dágóða stund.
"Heyrum nú hvað gekk á í gær"
(upptaka af "hápunktum" þáttarins í gær).
Lag og auglýsingar.
"Jæja nú ætlum við að opna fyrir símann og heyra í hlustendum. Klukkan er að verða sex og eflaust hefur mikið verið rætt á kaffistofum landsins. Gefum hlustendum hljóðið."
Staða handboltans rædd. Síðan furðufrétt. Það liggur við að það heyrist í músahnöppunum meðan þeir halla sér aftur í stólunum og vafra á netinu. "Seinasti geirfuglinn var skotinn á þessum degi" -"Heyrðu, Tom Hanks á afmæli" -"Hér á minni tölvu hef ég fundið furðufrétt um lottóvinningshafa sem hefur ekki farið í bað í tvö ár".
"Heyrum í hlustendum"