<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d11318911\x26blogName\x3d\x27tis+the+ballad+of+Bob\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dSILVER\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://balladofbob.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3dis_IS\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttp://balladofbob.blogspot.com/\x26vt\x3d-2569463983589778356', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe", messageHandlersFilter: gapi.iframes.CROSS_ORIGIN_IFRAMES_FILTER, messageHandlers: { 'blogger-ping': function() {} } }); } }); </script>





laugardagur, júní 28, 2008

Froð

Er ég algjört smábarn að finnast geðveikt gaman og spennandi að vera inní bíl þegar hann fer í gegnum þvottastöð?

Háþrýstiregn bylur á gluggunum einsog maður sé að túra um frumskóga Búrma í regntímabilinu!

Bíllinn lúskraður með skímslahöndum (svamprúllum). Óguð, læstu áður en óværan kemst inn!

Svo er marglitaðri froðu gubbað yfir bílinn einsog maður sé að keyra hægt yfir Mersedesklöb í froðudiskó. Kröns! Slúbb! Í gömlu þvottastöðinni í Sóltúni voru meiraðsegja marglituð diskóljós.

Svo koma vélar utan úr geimnum að skoða mann og sprauta geimeitri á gluggana!

Að lokum hristist bíllinn þegar trylltur hvirfilbylur skellur á honum!

Og auðvitað alltaf jafn frábært að vera dreginn eftir einhverjum teinum, einsog bíllinn manns sé eitthvað smábíls/járnbrautarlestar hybrid.

Þetta hefur örugglega eitthvað að gera með öll göngin sem maður bjó til úr pullum og pappakössum þegar maður var lítill. Þetter alveg þannig.

föstudagur, júní 27, 2008

Puð (andlegt)

Kominn aftur í kafbátinn. Fékk að senda tundurdufl með þessari handskrifuðu færslu innanborðs og vona að hún hafi komist á leiðarenda. Alveg merkilegt hvernig ég hef meira að gera í frílansinu en þegar ég vann á stofu. Og það er kreppa og allt! Djók.

Hverjusemlíður, ég er farinn aftur í að fá hálsríg við kyrrsetu, úlnliðsverk við flýtiskipanainnslátt og sprengdar augnæðar við kerning-gláp.

Annars vil ég líka koma því á framfæri að þessi þáttur:



...hefur hægt og bítandi orðið einn af mínum uppáhalds. Ég ætlaði að æða úr skinninu í svipuatriðinu í gær.

miðvikudagur, júní 25, 2008

Ætli þeir hafi lækkað launin sín í leiðinni? Selt eina einkaþotuna? Njeeee.

Skrítið að Flugleiðir ráku 300 manns þegar þeir gátu alveg eins rekið bara einn stjórnanda, sem er með laun á við 400 manns.

mánudagur, júní 23, 2008

Bolir

Ég er búinn að vera að drulla yfir knattspyrnu hér (og var qvótaður í Mogganum fyrir það, sem mér finnst soldið afrek) en ég hef þó séð búta úr leikjum hér og þar. Enda ekkert annað hægt, því þessu er rutt framan í mann með offorsi og dónaskap. Svefninn eina athvarfið... Þangað til þeir ná að geisla umfjöllun þangað inn með einhverjum óheilögum leiser. Ég mun tossa mér og bylta í sveittu laki þegar draumum mínum um friðsæld og angurværð á Gíbraltar er rift einsog ódýrum gluggatjöldum: "Við hliðrum til draumaheimi Bjöllmundar til að færa ykkur fótboltahlaðborð með aukaostiiii!" Segir SteiniJoð í martraðarfötum. Bobby finnst látinn í rúminu í morgunsárið einsog Freddie Kruger hafi náð honum. Nema að Knattó er verra skrímsli.

ANYWAY, þá hef ég oftast slysast til að sjá leikslok, þar sem ég er að stilla inn til að sjá fréttayfirlitið eftir leik. Fótboltagæjarnir eru alltaf að fara úr bolunum og gefa hvorum öðrum. Þetta ku leikmenn gera við hvert tækifæri. "Takk. Sveittur bolur. Einmitt það sem ég vildi." Djöfuls hrúgu af bolum hljóta þessir gæjar að eiga eftir nokkur ár í bransanum. Hvað gerir maður við 200 sveittar treyjur? Fer þetta á ebay? Þúst, ef þú ert í tapliðinu, þá ertu ekki bara búinn að tapa fyrir sveittum gæja með hárteygju, heldur þarftu líka að þvo af honum svitabol og troða honum í hillu hjá þér. wtf. Djöfull held ég að þessir bolir liggji bara í búningsklefanum þegar allir eru farnir.

Hver var fyrstur að þessu? "Hey *más* viltu hérna *svitn* eiga bolinn minn?" -"Ehh nei. Lúser."


PS-
Í Öðrum Fótboltafréttum:
OK ég sal sýna pínkulit. Þar sem ég er giftur senjorítu þá held ég með Spán. Vekjið mig ef þeir vinna. Svo ég geti séð þá safna bolum og setja í vinabókina sína.

sunnudagur, júní 22, 2008

Lærdómur Helgarinnar:

Pizzuverksmiðjan er æði. Allir þangað að fá sér sneið (ef þið viljið hafa það BjöllaStyle þá skal bæta við olíu og svona 2cm þykkri hrúgu af parmesan).

NEEEEIIIJJ!! Ekki þessi!

Einsog Dr. Gunni sagði einhverntíman: Þegar maður kemst að því að einhver sé í Vísindakirkjunni, þá missir maður gjörsamlega alla virðingu fyrir þeim. Manneskja sem maður leit á sem hetju breytist á augabragði úr hæfileikaríkum töffara sem maður vill knúsa yfir í nautheimskt flón sem mígur í buxurnar.

Hérna er listi yfir fólk sem maður hefði aldrei trúað að séu í vísundakirkjunni. Eða öllu heldur fólk sem maður vildi óska að væru ekki í henni.

Ég vara ykkur við, það er ekki hægt að af-lesa þetta. Búið ykkur undir að missa trú og tapa virðingu. Þetta er átakanleg lesning. Grátur á hverri síðu.

föstudagur, júní 20, 2008

Maðurinn á götunni

Ung stúlka: "Má bjóða þér að gerast meðlimur Amnesty International?"
Ég: "Nei takk, ég STYÐ pyntingar á pólitískum föngum."

Fyndinn? Fáráður? Bæði? Égveitekki.
Ég flissa amk alltaf pínu í huganum.

Night Train

Oj á að koma aftur með næturstrætó?

Back in the næntís var næturstrætóinn hörmulegur raunveruleiki þess að búa í Breiðholtinu. Fólk var að æla, míga og skíta á gólfið einsog það væri keppni. "Tek vöðlurnar með næst" hugsaði maður þegar öslað var í ökkladýpi af ræpu, niðursturtuðu afgangsbúsi og þrútnum pitsuskorpum. Svo voru allir reykjandi, berjandi og öskrandi og ríðandi og að drepast í sætinu. Þetta var einsog dómsdagsrútan.

PS ég var ekki að djóka með pissið, fólk bara stóð og meig á gólfið einsog kellingin í Little Britain. Hver gerir svona? Take it easy með að kasta úldnu þvagi á gólfið þarna mann-api! Pant ekki moppa. Alveg biohazard stöff. En að vera bílstjórinn? Hrollur.

Svo þegar leið á ferðina var svona öldugangur þegar ógeðislækurinn veltist fram og til baka. Maður þurfti að standa uppá pallinum þar sem sætin eru boltuð niður. Maður horfði á hryllingsöldurnar brotna á gólf-fjörunni á rytmískan hátt. Maður varð svona pínu dáleiddur og fór að heyra 'Sittin on the Dock of the Bay' í huganum.

Svo safnaðist þetta allt saman í niðursokkna gólfinu aftast þar til myndaðist svona Pond of Doom. Lauksúpa Lúsífers. Maður beið bara eftir að eitthvað Thing From The Swamp kæmi uppúr rjúkandi gallinu. Eitthvað skrímsl með bráðnaða hauskúpu og líkama froskmennis. Hann alveg, "Geturu ýtt á stopptakkann?"

Stuð að vera á einhverri stoppistöð þegar þessi böss kemur. Opnast hurðin og svona SPLASSSS, foss af mígi, pjúki og Hlöllabátasósu sturtast útum hurðina. Svo fylgir einn hellaður djammari með í árabát. "Er þetta Grafarholtið?" -"Nei vinur, þetta er meðferðarheimili."

þriðjudagur, júní 17, 2008

Dýraglens
e. Bobby Breiðholt


SKO!

Allt Með Kyrrum Kjörum Að Hrauni.
Hvítabjörninn að Hrauni á Skaga hefur verið rólegur í nótt....
Björninn heldur sig enn í æðarvarpinu um 300 metra frá bænum og lætur lítið fyrir sér fara...


SKO!!

Þetta sýnir bara greinilega að ísbangsar eru friðsælir og chillaðir á því. Ekki barnaætur og trylltir óeirðaseggir einsog unglingar á bílasýningu. Það er kominn tími á að bara bjóða honum inn í skonsur og te.

Næst sé ég fyrir mér fyrirsögn einsog:
Hvítabjörninn mun setjast að á Hrauni.

Bangsi mun bara hefja búskap þarna, vera í svona lopapeysu og með sixpensara. "Ég vinn bara fyrir mínum launum einsog hver annar borgari" segir hann við Jón Ársæl. "Hver er maðurinn á bakvið björninn?" Spyr þá Jón Ársæll. Bangsi horfir þá inn í eilífðina. "Ég er bóndi. Ég er íslendingur".

Svo mun hann vinna við góðgerðarstörf, ala upp ísbjarnafjölskyldu og hjörð af kindum og rækta karteflur. Eftir langan feril sem mannvinur og ambassadór mun Bangsi fá Fálkaorðuna og barnaskóla nefndann eftir sér.

Nei djók, hann verður drepinn. Ég lofa. Ef ekki af dönskum dr. Mengele þá af trylltum múg einsog í endann á Frankenstein.


PS-
Kommon, ef við gátum komið bölvuðum HVAL í flugvél og flogið honum frá USA til Vestmannaeyja, þá hljótum við að geta sett ísbjörn í rellu og droppað honum af hérna rétt hjá. Er það ekki??

sunnudagur, júní 15, 2008

Hef alltaf viljað pósta þessu. Svo ég geri það nú.

Þetta er alveg ótrúlegt myndband. Crispin Glover (sem við þekkjum og elskum sem George McFly í Back to the Future) er gjörsamlega AÐ TAPA SÉR á einhverskonar dópi/búsi/vúdú-álögum í viðtali við David Letterman 1987.



Ég veit ekki hvort er betra, Crispin á barmi örvæntingar af dópi eða þegar hann reynir að sparka í höfuðið á David.

laugardagur, júní 14, 2008

úff

Waaaaaáá hvað ég hata röddina í Rachael Ray.

mánudagur, júní 09, 2008

Nafngift

Mér finnst það alltaf svo skrítið þegar kvikmyndir eru skírðar eftir gömlum dægurlögum, einsog til dæmis Sea of Love og Pretty Woman.

Þú veist, sátu pródúserarnir bara á fundi...

Exec 1: "Hvað í andskotanum eigum við að skíra myndina?"
Exec 2: "Glaða Hóran"?
Exec 3: "The Whoremongering Millionaire?"
Exec 2: "Eða kannski "Falling For a Woman Who Gets Anally Raped For a Living??"

Heyrist kunnulegt lag í útvarpinu...

Allir: "PRETTY WOMAN!"


Sko, ég skil þegar lagið gæti tengst myndinni einhvernveginn, einsg td. Stand by Me. Og já OK, það má vel vera að einhverjum hafi fundist Julia Roberts myndarleg á sínum tíma, en ég efast um að Roy Orbison hafi verið með vændiskonur í huga. En svo eru það myndir einsog My Blue Heaven sem er grínmynd um FBI gæja sem þarf að fylgja útsmognum mafíósa í réttarhöld. Ekki beint mynd sem lætur mann hugsa til Fats Domino. Alveg klárt dæmi um lag sem var fyrir tilviljun í útvarpinu þegar hún var skrifuð. Geðveikt fyndin mynd samt.

laugardagur, júní 07, 2008

The Forest Goblin!

Er eitthvað í þessu lífi hallærislegra en Stephen King bíómynd?

Við sáum Dreamcatcher í sjónvarpinu í gær. Eða réttara væri að segja að við sáum eins mikið af Dreamcathcer og maginn og hausinn á okkur þoldu. Þvílík djöfulsins þvæla.

Sko, innihaldslýsingin gæti lofað góðu: Vinir sem eiga sameiginlega og dularfulla fortíð eru veðurtepptir í veiðikofa þegar þeir skyndilega eru í miðri sótthví. Paranoja, smithætta og fortíðin sem sífellt nagar þá. Dimmur skógur, fannfergi og óútskýranlegir atburðir. Jónína sá fyrir sér auka-layer af weirdness þar sem mörkin á milli martraðar og raunveruleika eru gerð óskýr á smekklegan hátt.

Hljómar vel? --Wrong.

Við erum að tala um Stephen King hérna. Myndin er leiftursnögg að draga fram geimverumaðka sem sprautast út um rassinn á fólki og bíta alla í tippið. Tölvuteiknuð geimveruskrímsli eru að skrímslast í skóginum og vinirnir eru allir með skyggnigáfu sem þýðir að sjálfsögðu að þeir geta skotið tölvuteiknuðum bylgjun úr fingurgómunum. Þeir fengu semsagt dulræna hæfileika að gjöf frá þroskaheftum dreng sem þeir björguðu í æsku. Jamm. OG Morgan Freeman leikur hermannakall sem "...has gone insane from hunting aliens for 25 years". Wtf.

Stephen King er svo ótrúlega hallærislegur og BÓKSTAFLEGUR að það nær ekki nokkurri átt.
Steve mætir til útgefandans: "Ég sé fyrir mér GSM síma sem drepa fólk!"
Útgefandinn: "Jaaaaá... þú meinar að bylgjurnar úr þeim láta fólk tapa vitinu...? Einhver heilavírus máski? Áleitnar spurningar um nútímasamskipti og geðveilu?"
Steve: "ha, neinei, símarnir fá sko vígtennur og klær og fljúga um og rífa hausinn á öllum í tvennt!"
Útgefandinn: "..."
Steve: "Svo er einhver skyggn þarna líka. Hann getur sko talað við skrímslin sem búa í símanum."
Útgefandinn: "..."

Tökum Shining sem dæmi. Meiriháttar mynd, gerð eftir bók eftir Stebba... sem hataði myndina. "Hvernig DIRFIST þið að afbaka hugsjón mína. Skrumstæling og ógeð! HÚMMFF!!" Geðveikt fúll í heilu áratugina. Svo einhverntíman í næntís kom svona "SHINING: Einsog Stephen King VILDI hafa hana!" mynd. Einhver megaglötuð sjónvarpsmynd í tveimur hlutum á Stöð 2.

Nýja myndin var ösköp svipuð þeirri eldri... fyrir utan að vera illa skrifuð, ömurlega leikin og augljóslega með budget uppá svona tvöþúsund krónur. En aðalmunurinn var að í Kubrickútgáfunni voru óværurnar í höfðinu á Jack Torrance. Í King útgáfunni voru óværurnar BÓKSTAFLEGA skrímsli sem voru að skrímslast. Steinstyttur sem lifna við og svona.

Það var ekkert svona "I feel like there are monsters in my mind..." heldur frekar "There are monsters... IN THE BASEMENT!"

Ég er alveg kominn með upp í kok af þessu. Og þá meina ég BÓKSTAFLEGA! Það eru skrímsli í kokinu mínu sem eru í alvörunni ÉG þegar ég var yngri... BÚ!!

óguð

DÆS. Þá er enn og aftur komið að því að umturna lífinu vegna fótboltamóts...

"FÓTBOLTAVEISLAN ER HAFIIIIN!!!" Öskra blikkandi auglýsingarnar og tækla mann. Myndavélin súmmar inn á Þorstein Joð með tryllt fótboltaaksjón í bakgrunni sem speglast á skallanum. "Stærsti viðburður ársins: EM Í FÓTBOLTA. Heill mánuður af stanslausri fótboltaumfjöllun. Daginn út. Daginn inn. Fótbolti er í fyrirrúmi á RÚV í júní!"

Eða sko, þetta heyrðu fúttboll fans. Ég heyrði bara: "HELFÖRIN ER HAFIN!!! Niðurgangur og dómaraflautur, píning og gerfigras! Þorsteinn Joð!"

Sko ég veit að mörg ykkar eru algjör soccer sluts, en ég bara meika ekki svona hörmungamaraþon. Treyjuklæddir sófaleikmenn túlka eflaust "Mánuður af stanslausri knattspyrnu" sem fyrirheit um alsælu, en ég upplifi þetta sem hótun um ofbeldi.

Sjii, ég er svo mikið útúr mínu umdæmi þegar kemur að knöttspyrni að ég hef ekki hugmynd um hver er Evrópumeistari, Heimsmeistari, Norðurlandameistari, Englandsmeistari, Íslandsmeistari, Belgíumeistari eða Bakarameistari. Bara flöt lína af ignórans og áhugaleysi.

Svo linnir þessu ekkert þó það sé slökkt á sjónvarpinu. Maður getur ekki farið inní búð án þess að stíga í gegnum gervigras og röndótta bilslá. Hurðirnar á 10-11 eru semsagt mark. Helvítis EM hefur breytt mér í helvítis fótbolta. Bókstaflega. Mér líður einsog það sé verið að sparka í mig í hvert sinn sem ég geng inn um þessa Dyragætt Lúsífers.

Ég er farinn að grafa holu til að skríða oní. Mánuður neðanjarðar. Hljómar vel.

miðvikudagur, júní 04, 2008

Meira plaff.

þriðjudagur, júní 03, 2008

Hvítt og rautt

Rólegir að bara skjóta ísbjörninn í beinni útsendingu. Ég er enginn grænfriðungur (í þessu tilviki hvítfriðungur), en þeir hefðu þó mátt hinkra aðeins lengur en eina andrá með að drita hann í tætlur. Hefði ekki mátt gera við hann einsog býflugu, hvolfa glasi yfir hann og henda honum svo útum gluggann? Eða þið vitið...


Þetta fannst þeim gaman, strákunum á Skagafirði.

Reyndar eru þessir bóndadurgar svo æstir í að skjóta og drepa ókunnugar skepnur að þeir hafa allir stormað út með byssurnar um leið og sást til hans. MÁÉG MÁEG!! Ef einhverjar geimverur eða tímaferðalangar ætla sér að koma með mikilfengleg skilaboð um friðsemd, þá mæli ég ekki með því að þeir lendi í Þverárhlíð.

En fyrst það er búið að skjótann, má ég fá að eiga hausinn?