<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar/11318911?origin\x3dhttp://balladofbob.blogspot.com', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>





laugardagur, nóvember 29, 2008

WTF Dagsins

Enn um Hagkaup. Þeir flagga því stoltir að nú sé opið allan sólarhringinn niðrí Skeifu. ööö af hverju? Ég skil það alveg að nauðsynja- og fyllerísmatarbúlla einsog 10-11 sé opið 24/7... en Hagkaup í Skeifunni?! Er þetta fyrir þá sem bara bráðvantar joggingbuxur klukkan 4 um nótt? Eða þegar maður fær miðnæturmunchies og vill nýskorið hrossagúllas?

Þetta er bara svo sprenghlægilega útúr kú. Einsog að Blómaval sé opið allan sólarhringinn eða eitthvað.

Jæja ég er farinn að elda hamborgara.

föstudagur, nóvember 28, 2008

Dauðdagi

Pælið íðí að kafna á ísmola. Hann myndi bráðna og enginn vissi hvað kom fyrir mann.

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Handarkrampi

Hvernig nennir Egill Helgason að blogga svona mikið? Svona 50 færslur á dag. Og bara um K-orðið. Ég þori að veðja að hann fer með tölvuna á klósettið til að gera nokkrar færslur í leiðinni.

mánudagur, nóvember 24, 2008

Auglýsingaskóli Bjölla Brief #2

Sko það er í fínu lagi að segja "Okkar bjór er bestur", "Fallegasta innheimtufólkið" og "Við bjóðum ferskustu bjúgun". Að vera montrass er hornsteinn auglýsingagerðar. Hinsvegar hef ég tekið eftir tveimur slagorðum/sölupunktum sem eru svo miklar lygar að bara... það er eiginlega ekki hægt að útskýra það. Þetta eru bara ósannindi. Jah eiginlega ekki ósannindi, heldur frekar bara röng stefna... Einsog Ora Rauðkál myndi segjast vera "Bestu sláttuvélar í Belgíu".

Lof mér að útskýra...

A) Hagkaup kyrja stoltir í gómsætu rími: "Ein ferð, betra verð". Ég veit ekki í hvaða góðærisbergmáli þeir lifa, en fólk verslar ekki í Hagkaupum því þar er betra verð, heldur vegna þess að Bónus selur ekki framandi mat. Bónus er með shittý vöruúrval og því röltum við yfir í HK fyrir restina; fína dótið. Í raun er Hagkaup ferð númer tvö. Slagorðið ætti að vera "Önnur ferð, kaupa ferskan rauðmaga ég verð".

Eru þeir hættir með "Þar sem íslendingum finnst skemmtilegast að versla"? Því það var nagli á höfuðið. Hagkaup, þú ert háklassa búlla þar sem er gaman að skoða skrítna ávexti og kaupa kolkrabbablek og nepalska íssósu... og við borgum fyrir munaðinn. Ekki koma með einhverja hagkvæmnis þvælu, það bara skemmir reynsluna.


B) KFC auglýsir grimmt að þú getur valið um afar fjölbreytt meðlæti: djúpsteiktar franskar, smjöruga karteflumús EÐA... ég man ekki hvað... eflaust volgt, nýslátrað svínaspik. En! Svo enda þeir auglýsinguna á þessu: "NÚLL PRÓSENT TRANSFITA!"

Ég veit ekki hvað transfita er, en það hljómar einsog að KFC sé að reyna að selja okkur að þeir séu hollir á einhvern hátt. Elsku KFC... Þú ert án nokkurs vafa það óhollasta sem er til á þessari grænu jörð. FOKKING GÓMSÆTT en alveg dauðlega slæmt fyrir mann. Og þess vegna elskar fólk að borða KFC. Þetta sósuga, salta jukk er þynnkumatur og eitthvað sem maður leyfir sér þegar það er blátt tungl úti. Við erum ekki að gabba sjálf okkur að þetta sé hollt, þannig að ekki þú reyna að gera það. Vertu þú sjálft, KFC. Ef við vildum í alvöru hollt, þá værum við bara hráætur.


Jamm lærdómsmolinn hér er að við eigum að vera við sjálf og treysta því að fólk elski okkur samt. Ef þú flytur inn gosdrykk úr bavíanablóði, ekki reyna að telja okkur trú um að hann verði ódýr. Og ef þú selur gómsætt kransæðadrulluspik, ekki fara í samkeppni við Grænan Kost.

Seldu bara þína kosti og leyfðu fólki að velja. Við erum ekki fávitar, í alvöru (þótt við étum fituga kjúklingamör af og til).

laugardagur, nóvember 22, 2008

Allur tíminn sem hefði betur farið í annað (td. að sauma sér nýjan léreftsponsjó)

Fyndið að hugsa til þess að fyrir ekki nema ári síðan var góðærið slíkt að það átti bara að ryðja laugaveginum burt og reisa þar hótel og bútíkbúðir. Þvílíkt djöfulsins hitamál var þetta. Fólk var að tapa sér í væli, mótmælum, myspacesíðum, undirskriftalistum, styrktartónleikum og kertafleytingum. Þjóðin leitaði til Bjarkar og hráæturnar grétu trylltum ofstopatárum og rifu út hárið sitt í örvingluðu brjálæðiskasti.

Svo kom bara Kreppan og reddaði öllu. Hér verður hvorki rifið né byggt (hvað þá klárað) í mörg ár. Allt þetta tuð til einskis.

föstudagur, nóvember 21, 2008

For. Tíð.

Jónína klukkaði mig og ég verð að vernda heiður minn og hlýða
(hvaða ár er þetta? 2004?).

1. Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
Glymskratti
Videoleigugaur
Einyrki
Er þessa stundina í auglýsingabransanum

2. Fjórar íslenskar bíómyndir sem ég held upp á:
Sódóma Reykjavík (doj)
Löggulíf
Foxtrot
Þarna dýralífsmyndin um hagamúsina

3. Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Breiðholt
Miðbær
Bústaðahverfi
Ghana

4. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Holland
Boston
Amalfi
Cannes

5. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
MAD MEN !!!!
Seinfeld
Tommi & Jenni
The Wire

6. Fjórar síður sem ég skoða daglega:
Boing Boing
Cute Overload
Flickr
A/V Club

7. Fernt matarkyns sem ég held upp á:
Indjánakjöt
Steiktir gullfiskar
Raksápurassgöt
Ostborgari (Drekinn)

8. Fjórar bækur/blöð sem ég held upp á/les oft:
Bill Bryson er í uppáhaldi
Ævisögur um hæfileikaríkt, spennandi og/eða drukkið fólk
Bækur almenns eðlis. Helst um sögu, vísindi eða blöndu beggja
Torfærutímarit

9. Fjórir staðir sem ég vildi vera á núna:
Í skosku hálendunum með flösku af Glenlivet
Á sporbaug um Satúrnus
Í einkaklúbbi lottóvinningshafa
Uppí rúmi að kúra, knúsa og káfa

10. Fjórir bloggarar sem ég á að klukka:
Ég skora á ÞIG lesandi góður (og þrjá vini þína), að halda fána Klukks á lofti!!!

fimmtudagur, nóvember 20, 2008

Kool-Aid

Það eru liðin 30 ár frá atburðunum í Jonestown.

Þar fundust hátt í þúsund meðlimir alræmds sértrúarsafnaðar látnir eftir að hafa verið neyddir til að drekka eitur. Auk þeirra lágu í valnum bandarískur þingmaður, fréttamaður NBC og leiðtoginn sjálfur, Jim Jones.

Hér má sjá heimildarmynd um þennan hrikalega atburð sem og sögu Jim Jones og People's Temple. Viðtöl við meðlimi, vitni og þá sem komust lífs af. Afar áhugaverð saga og frábær mynd, þrátt fyrir að hún sé nánast óbærilega erfið áhorfs undir lokin.

Eftirá mæli ég með Cute Overload til að hreinsa hugann.

laugardagur, nóvember 15, 2008

Besta auglýsing í heimi.


föstudagur, nóvember 14, 2008

Ég hata lífið enginn skilur mig þú ert ekki alvöru pabbi minn



Þessi unglingur strunsaði á ógnarhraða um göturnar í morgun. Veit ekki hvernig hann sá hvert hann var að fara. Var ÉG svona á hans aldri??

Tssj, mín börn munu ganga um með biblíur á hausnum og læra að standa upprétt og stolt.

Fengið af Krotborginni.

miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Orð í belg

Þrátt fyrir að ég hafi fyrir löngu fengið mig hnakksaddann af krepputuði og sé í hálfgerðu fjölmiðlabanni þá bara verð ég að vekja athygli lesenda á eftirfarandi.

Gísla Foster barst bréf frá ungri konu á Egilsstöðum sem hefur sitt að segja um ástandið. Þetta er sko engin sorgarsaga einsog bréfin sem Egill Helgason fær, heldur einhver sá magnaðasti reiðilestur sem hefur sést í óbundnu máli. Það er fátt betra en hugmyndarík skammarræða og þessi er sko með þeim frumlegri.

Lesa bréfið hér

Það mætti segja að þessi manneskja sé að tala máli þjóðarinnar mun betur en nokkur ráðamaður eða sjónvarpsspekúlant gæti gert. Alveg meiriháttar ræða og mér finnst að þessi kona ætti að setjast niður og skrifa skáldsögu. Nú eða bara bjóða sig fram.

"Kampavínssjúgandi lirfubellir"?
Bellissimo! *kyssir puttana einsog kokkur*

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

"Gott... En er einhver leið til að gera það hættulegra?"

Hver í andskotanum var annars pælingin með þetta:



Voru þeir geðsjúkir?

"Við göfum loksins fullkomnað hönnunina. Til að komast upp á hjólið notarðu bara þessar handhægu tröppur og ef þú kemst á leiðarenda þá bara... uh detturðu í jörðina. Jebb, ómögulegt að bæta þessa hönnun."

Hvað ætli pappírstætarar taki mikið af pappír í einu?

Skjáreinn berst fyrir lífi sínu og hafa tugir þúsunda skrifað sig á mótmælalistann sem heimtar að RÚV verði rekið af auglýsingamarkaði og fái auk þess engan ís í eftirrétt.

Ég er reyndar sammála því að RÚV sé með ósanngjarna stöðu á markaðnum, en eitt veit ég þó: Ég hef aldrei orðið vitni að því að undirskriftarlisti breyti nokkrum sköpuðum hlut. Það var þarna listinn sem heimtaði að DO yrði rassskelltur og roðflettur. Þar komu mörg nöfn, alveg örugglega. En bjóst fólk við því að hann héldi blaðamannafund með tárin í augunum, "Ég hef svarað kalli þjóðarinnar!" og hoppaði svo út um gluggann?

Mér finnst alltaf svo fyndið að sjá þegar svona listar eru afhentir. Ráðamaðurinn kemur út á tröppur alveg, "ha hvað er hér í gangi? Ég er í miðjum mat?" Þá stendur þar einn gæji í úlpu og réttir honum græna gatamöppu. Þessi græna mappa er einsog heimsins ógeðslegasta jólagjöf því ráðamennið er alltaf "Já, ööö takk. Alveg frábært... framtak. Einmitt það sem ég vildi... *klappar á möppuna* Ég mun alveg örugglega lesa þetta sko." Svo er hann alveg, var það eitthvað fleira? Og þá fer úlpugaurinn aftur heim til sín. "Bless" -"Jáh sæll vinur (hvað var nú þetta?)"

Ég vil auk þess benda á að úlpugæjinn stendur alltaf nokkrum tröppum neðar en ráðamennið, svo hann lítur örugglega út einsog valdalaus piltur á meðan ráðamennið stendur efst og flissar til blaðamanna.

Ég veit ekki hvað verður um svona lista, en ég gruna að þeir fari þráðbeina leið í ruslið eða í einhverja geymslu, alveg einsog allar jólagjafir sem maður vill ekki. Verst að það er ekki hægt að skipta undirskriftarlistum fyrir Andrésblöð eða eitthvað.

föstudagur, nóvember 07, 2008

Keppni

Hvaða lag er hérna tekið í blússandi fínni Django Reinhart útgáfu? (bannað að svindla)


miðvikudagur, nóvember 05, 2008

heh.

mánudagur, nóvember 03, 2008

Sniff

Ég veit að ég hef póstað um þetta áður fyrir einhverjum árum, en þetta er bara of meiriháttar til að gleymast.

Fann linkinn á "Glue sniffing and pills" skannið í gömlum bókamerkjum. Skoðið og elskið.






Ef þeir hefðu verið með svona forvarnar slideshow þegar ég var krakki þá hefði ég rokið út að sniffa og væri enn að í dag. Alveg sjúklega kúl. Myndirnar þeas, hehe.

sunnudagur, nóvember 02, 2008

skruðningar

Eitt af ógeðslegustu hljóðum sem ég veit um eru skruðningarnir sem koma í MP3 fælum í lélegum gæðum. Æ þið vitið, svona járnkennt, búbblandi prjál í bakgrunninum sem hljómar einsog vélmenni með niðurgang. Pixlað hljóð.

Því miður heyri ég þetta hljóð á hverjum degi þegar ég hlusta á Gullbylgjuna. Það er einsog þeir hafi dánlódað þriðjungi laga sinna af Napster árið 2001 og þá á 12kbps eða eitthvað.

Það er nógu slæmt að heyra að útvarpsstöð stelur sinni tónlist af netinu, hvað þá þegar það hljómar einsog þeir rippi lögunum beint af previews á amazon. Upp með brækurnar piltar.