<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d11318911\x26blogName\x3d\x27tis+the+ballad+of+Bob\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dSILVER\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://balladofbob.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3dis_IS\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttp://balladofbob.blogspot.com/\x26vt\x3d-2569463983589778356', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe", messageHandlersFilter: gapi.iframes.CROSS_ORIGIN_IFRAMES_FILTER, messageHandlers: { 'blogger-ping': function() {} } }); } }); </script>





miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Mute

Það er margt slæmt við internetið, en langflestu get ég lifað með. Ég get sætt mig við ruslpóstinn, ég get ignorað Goatse og tubgirl. EN! Ég mun ALDREI, NOKKURN TÍMAN venjast þeim hryllilega viðbjóði sem er talandi, syngjandi, pípandi og gólandi flash bannerar! Auglýsingar með hljóði er mest ergjandi fyrirbæri sem nokkurntíman hefur birst á netinu!

Ég held að allir notendur myspace muni eftir "I'm counting down the minutes until I can be with you again!" Sem leiddi af sér heila öldu af haturs-bulletins og jafnvel undirskriftarlista sem átti að senda á Tom. Núna er svipað uppá teningnum á Viceland en þar má heyra konu með pirrandi rödd segja "Imagine you just... passed away." Í kommentunum fyrir neðan greinarnar er lítið annað en haturspóstar frá trylltum múg sem segist aldrei ætla að versla hjá Diesel aftur.

Hvað gengur auglýsendum til? Vita þeir ekki að fólk hatar svona lagað? OK, ég skil að fertugir markaðskallar sem nota ennþá friðþjófa og faxtæki vita ekki hvernig myspace krádið bregst við talandi auglýsingum. En flash-hönnnuðirnir á auglýsingastofunni vita svo sannarlega að svona fargan hefur þveröfug áhrif.

Ég vona bara og bíð með kjúkur spenntar að einn daginn muni sú vitneskja berast til ráðamanna að netverjar engjast grátandi um í sveittum stólum sínum þegar heimasíður fara skyndilega að tala við þá.

mánudagur, ágúst 28, 2006

Kæri Sirkus.

Þú ert ferðamannagildra með leðjugt skotgrafargólf.

föstudagur, ágúst 25, 2006

Plögg

Eru ekki allir með bókamerki á Skrúðgöngunni?
Alltaf eitthvað sneðugt að ske þar.

Draumadís á Föstudegi 2

Debbie Harry

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Tölfræði

Boeing 747, Antonov 225, Haltermajer 25-U.

Hvaðan koma tölurnar í svona nöfnum? Þetta er eitthvað svo tilviljanakennt.

Byrja þeir á núll?
Ef svo er, þurfti Boeing 747 tilraunir til að búa til þessa tilteknu vél?

Eða eru þeir bara inspireraðir á staðnum?
Ef svo er, leit þá Dr. Schwinn á nýju fiskflökunarvélina, nuddaði sér á brá og ákvað, "Guttermax 3150."

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Gussi og steikti speninn

Þeir gátu ekki haldið henni úti lengi. Hún stormar aftur inn, með ljóst hárið í skítugum kleprum og í snjáðum gallajakka yfir bleika prjónapeysu. Hún er miðaldra og stjórnlaus. Hann er kyrr og liggur fram á borðið. Í skítugum höndum hans er kámugt glas sem áður geymdi "vodkígóg". Hún strunsar rakleitt til hans, kippir honum af borðinu og öskrar einhverja þvælu framan í hann. Í gegnum þykk gleraugun hans sjást ranghvolf augun og það er pissublettur í gráum buxunum. Ég ætla að skýra hann Gussa.

Hann Gussi kom hérna inn fyrr um kvöldið með vasana úttroðna af klinki og var þá vel í skál. Hann gæti líka hafa verið á einhverjum geðlyfjum, ég er ekki viss. Kanski bæði. Hann pantaði sér "vodkígóg" og dró fæturna að Lukkuskjánum. Hann stóð við skjáinn lengi vel og hallaðist sífellt meira til hliðanna eftir því sem hann drakk. Í eitt skiptið hallaðist hann svo mikið til hægri að hann skorti fótur og greip í Lukkuskjáinn sér til stuðnings. Það munaði minnstu að vélin tækist á loft og flygi í gólfið. Glasið mölvaðist á parketinu. Gussi stóð og horfði á pollinn og glerbrotin í gólfinu eins og sjómaður horfir í hyldýpið. Honum var bölvað af barþjóninum, ungum og tattúveruðum manni í Everlast joggingbuxum og sportsandölum. Eftir muldur og tuldur sem ég greindi ekki fékk Gussi annað glas af drykknum sínum. Muldrið gagnaðist honum vel því hann fékk þrjú glös tl viðbótar um kvöldið án þess að borga. Eftir því sem drykkjan magnaðist fór Gussi að dilla sér í hnjánum og hrópa "hey-hey" með tónlistinni á gamla sixtísrokk safndiskinum sem skippar á öðru hverju lagi. Konu á hinum enda barsins líkaði ekki við hrópin í Gussa. Hún var miðaldra og í bleikri prjónapeysu. Andlit hennar bar margra áratuga harðs lífernis greinilega merki. Hún kláraði úr bjórnum sínum og slugsaði í áttina að Lukkuskjánum.

Hún hrækti á skjáinn og hrópaði eitthvað á Gussa. Hann skildi hana enn síður en ég. Hún gæti hafa komið frá Litháen, Póllandi eða einhverri af þessum austantjaldsþjóðum. Barþjónninn sagði henni að láta hann í friði, en hún lét ekki segjast. Gussi var búinn með klinkið sitt og því færði hann sig aftur á barinn. Hún elti hann og öskraði meira. Hún lamdi hann með hvítri leðurbuddu sem var orðin brúnleit af skít. Gussi kom ekki upp orði af ofdrykkju og sagði bara "hey-hey". Að lokum fékk barþjónninn nóg og henti henni út. Gussi seig niður í barstólnum og lagði höfuðið í bjórpoll á borðinu.

Núna er herfan semsagt komin aftur inn og hefur rifið hann upp. Gussi er pissublautur, skítugur og dauður.

Hún reynir að slá hann til en maðurinn sem situr við hliðina á Gussa hefur fengið nóg og ýtir henni frá barnum. Hún missir jafnvægið og reynir að koma fótunum fyrir sig. Hún hleypur afturábak, beint í áttina að horninu þar sem ég sit. Það eina sem ég get gert er að halda flötum lófanum yfir bjórnum mínum þegar hún hrynur í gólfið við hliðina á mér. Hún staulast upp og rekur augun í mig. "Ekki slasa þig væna" segi ég og hristi froðuna af höndinni. Skyndilega skiptir hún um skap og fer að tala í tælandi tón með þessari útlensku sinni. Mér er ekki um sel. Hún hallar sér að borðinu til að halda jafnvægi. Ég er fastur. Það yrði ómögulegt fyrir mig að ýta borðinu frá til að komast úr sætinu og sleppa. Hún fer að snerta risavaxin brjóstin á sér og lyftir þeim hlæjandi upp og niður. Ég færi hausinn til að forðast ógeðslega fingurna á henni þegar hún reynir að snerta mig. Gengið á barnum skellihlær yfir þessu öllu saman. Mér til hryllings tosar hún skyndilega annað brjóstið uppúr hálsmálinu og lætur það plompa niður á bringuna. Það er æðabert og geirvartan er þvæld einsog gamalt tyggigúmmí. Það hafa eflaust mörg afkvæmin sopið af þessu í Lettlandi eða hvaðan sem hún er. Hún reygir sig aftur til að kveikja í sígarettu. Þessi ógeðslegi speni er hreint út sagt martraðarkenndur í birtunni af kveikjaranum.

Hún blæs reyknum frá sér og hallar sér yfir borðið til að segja eitthvað. Bert brjóstið færist sífellt nær kertinu þangað til loginn snertir tuggna geirvörtuna. Hún er svo drukkin að hún finnur ekki fyrir því fyrst. Það er ekki fyrr en eftir nokkurra sekúndna steikingarhljóð að hún kippist við og hendist afturábak með skaðbrunnið brjóstið. Hún hrynur í gólfið með miklum látum og gengið á barnum lítur við. Þar sem hún sneri bakinu í þá halda þeir eflaust að ég hafi kýlt hana eða eitthvað. Þeir spretta upp og barþjónninn strunsar í áttina að mér. Hann segist ætla að drepa mig.

Ég stekk næstum jafnfætis upp á stól og stikla á milli borðanna til að forðast trylltan mannskapinn. Diskurinn er farinn að skippa og Gussi segir bara "hey-hey!" Ég heyri sársaukavein í austantjaldsherfunni og það síðasta sem ég finn áður en ég næ að stökkva út er viðurstyggileg lykt af steiktu fleski.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Draumadís á Föstudegi 1

Kate Bush

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Grunaði ekki Gvend

Munið þið eftir morðinu á JonBenét Ramsey fyrir sléttum áratug síðan? Jæja það er loksins búið að handtaka einhvern sikkó fyrir glæpinn. Þessi gæji var í felum í Bangkok og hefur áður komist í kast við lögin fyrir kynlífsglæpi. "Ég elskaði hana" sagði hann við blaðamenn.

Tékkið á þessum gaur, hann er algerlega að halda goðsögninni gangandi: Barnaníðingar líta ALLTAF út einsog barnaníðingar!










Í fullri alvöru, gæti þessi gæji verið bankaræningi? Leigumorðingi? Veiðiþjófur? Nehei. Ég er að segja ykkur það, þetta er einsog með Gollrir og hringinn í sögunni forðum: Um leið og þú gefur þér barnapervismanum á vald, þá breytist þú í slímuga óværu með ómennskt augnaráð sem hræðir búfénað.

Efins? Taktu prófið!













Hvað ætlar ÞÚ að gera á Menningarnótt? Eitthvað spennó að ske?

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

Skokk Svitn Togn

JÆJA er þetta ekki orðið ágætt af Glitnis-skokkurunum?

Sena úr kvikmynd:

Það er mið nótt og skrifstofubyggingin er tóm. Innan um skrifborð og ljósritunarvélar laumast hetjurnar svartklæddar. Verkefni þeirra er brýnt: Að stela til baka dulmálskyklinum. Í röngum höndum gæti þessi vél opnað alla bankareikninga og eldflaugakóða í heiminum! Mr. McKenna eru þessar röngu hendur. Hann mun falla í kvöld.

Skyndilega fer viðvörunarkerfið í gang.

Á augabagði fyllast allir stigagangar af sérsveitarmönnum með alvæpni. Þeir eru með vélbyssur mundaðar, hjálma strekkta og stígvél þétt reimuð. Þeir storma á ógnarhraða að herberginu sem hetjurnar eru í. Roger dregur byssuna sína úr slíðrinu. "We've got company" segir hann í nærmynd.


OK, OK, ýtum aðeins á pásu hér!

Ég hef aldrei sætt mig við allar þessar víkingasveitir sem virðast búa í öllum byggingum í bíómyndum. Í hverju kvikmyndaskrifstofuhúsnæði er lítið herbergi þar sem heil herdeild öryggisvarða, grá fyrir járnum og á fullum launum, bíða teinréttir eftir minnsta tísti í brunaboðanum með byssurnar stilltar á "safety off".

Ég skil að það sé gott að vera með þessa gæja á high alert þegar Jean-Claude Van Damme eða einhver er að laumupokast í húsinu, en hvað með næturnar þegar það er EKKI brotist inn í epískri björgunaraðgerð? Eftir átta tíma vakt af því að standa átekta og horfa á litlu rauðu peruna í loftinu, slær klukkan loksins vaktaskipti og sveitin andar frá sér. Þeir rétta úr sér, taka af sér hjálmana, setja hríðskotabyssurnar aftur í skápinn og fara heim til fjölskyldna sinna. Enn einn dagurinn í vinnunni liðinn án blóðsúthellinga.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Aléttu skít

"Ég er alæta á tónlist" er eitthvað sem fólk sem hefur ekki hundsvit á tónlist segir. Þú mátt ekki fíla allt, það er bara bannað. Þá ertu að ráfa stefnulaust um dimman skóg með batteríslaust vasaljós, útrunnið landakort, í götóttum gönguskóm og með ganlan Gameboy í staðinn fyrir GPS tæki. Vinsamlegast veldu þér 3-4 tónlistartegundir og/eða -stefnur og sinntu þeim af ástríðu, ekki vera einhver kasjúal skimari.

Ég hata meiri músík en ég fíla. Þetta er verst:

SmithsCurePixies
Besta leiðin til að drepa sig er að skera púlsinn á ská í heitu baði. Slökktu á græjunum og láttu verða af því.

Gardínumúsík
Norah Jones, Katie Mehlua, Jón Ólafsson et al. Bakgrunnstónlist í bakaríi. Beige-litað tónlistarveggfóður.

Rapp
Síðasta góða rappgrúppan var Grandmaster Flash and the Furious Five. Endilega prove me wrong en þangað til, farið með þessa jogginggalla eitthvert annað.

Leðurbuxur
Ég veit ekki af hverju, en ég get ekki hlustað á tónlist sem er flutt af mönnum í leðurbuxum. Ég held að að sé þessum gæja að kenna.

Fúnk
Ég nenni ekki að hlusta á wagga-wagga gítar og ærandi básúnuhroða í átta mínútur. Útvíð pólíesterjakkaföt og Puma skór við er ljótt átfitt.


Og það versta af því versta af því versta:

Drum n Bass
Ég greini aldrei muninn á einu lagi og öðru, því þetta er alltaf sami takturinn. Þá er ég ekki að meina, "Uss, svona taktföst lög virðast alltaf renna saman í eitt", heldur er ég að meina að þetta er BÓKSTAFLEGA alltaf sami takturinn! Þú tekur "The official drum n bass beat" sem hefur verið óbreytt í 15 ár, setur múfflaða bassalínu yfir og hæ prestó, þú ert búinn að gera nýtt lag. Slaufa-Ess fyrir save. Algert Color-by-numbers. Drum n Bass er einsog svona þriggja pússla pússl. Þroskaleikfang tónlistarinnar.

síðdegissvefngalsi

Krabbameinslegið lambalæri á 30 klósetta afslætti.

Dr

Bætt á haturslistann:

Þegar smávitar segja "Frankenstein" og meina skrímslið.
Í síðasta sinn: Læknirinn heitir Frankenstein,
skrímslið heitir ekkert!

laugardagur, ágúst 12, 2006

Bleeugh maheugh blaah

Hey, húrra fyrir Marlee Matlin og allt það, en ég bara þoli ekki að heyra hana tala!

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

þörfustu þjónarnir

Hvað myndum við gera án unglingavinnunnar?

Sigurrós bíður tuttuguþúsund manns með shitlokks og munchies í partý á Miklatúni og daginn eftir eru krakkarnir mættir að týna upp skranið. Í gærkvöldi var mikil kertafleyting á Tjörninni, sem þýðir væntanlega að núna séu þau, einsog Sigrún komst að orði, í vöðlum og með háf að veiða kertin.

Guð blessi litlu krílin, þau vinna skítuga erfiðisvinnu í átta tíma á dag og fá svona tíu þúsund krónur á mánuði fyrir það. Án þeirra væri arfi í mold, mosi í stéttum og nammibréf í ræsum. Tökum okkur tíma til að klappa þeim á kollinn og segja, "Hey. Litla pollabuxnaklædda hetja, þú ert svo sannarlega sómi Reykvískra gatna." Hann mundi svo svara með grín-unglingaröddinni sem við kunnum öll að herma eftir: "Hööö??"

Teygj

Mér finnst að þessi "götulistamaður" ætti að sleppa milliliðnum og bara hrinda fólki niður tröppur.

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

A whole new world.

Tinna Alavis er forsíðuefnið á Hér og Nú sem kom út í seinustu viku. Þar sem ég les þann snepil ekki reglulega var ég bara að rekast á þetta viðtal við hana núna, í mat hjá foreldrunum. Hún Tinna hreppti víst annað sætið í Ungfrú Ísland fyrir þremur árum síðan og segist vera "Normal stelpa sem vill normal hluti eins og BMW X5, penthouse-íbúð niður við Sjávarsíðuna í Garðabæ og flatskjá sjónvarp".

Ég mundi svosem ekki vísa sendli með ókeypis flatskjásjónvarp á brott, en ég veit ekki hvernig bíl hún er að tala um né hef ég heimsótt þetta tiltekna hverfi í Garðabæ, þó það sé eflaust mjög fallegt. Hún Tinna lifir í öðrum heimi en ég. Hún hlustar á tónlist sem ég hef aldrei heyrt um, talar um bíla sem ég veit ekki að eru til og kaupir föt í búðum sem ég hef aldrei heimsótt.

Við gerum oft grín að appelsínugulum gæjum í skyrtum úr olíubornu gerfiefni, en þeir gera svo sannnarlega grín að okkur líka. Ég hef orðið fyrir aðkasti þegar ég stend fyrir utan Sirkus eftir lokun. "Hey, farðu aftur að mótmæla á Kárahnjúkum!" Hrópaði draugfullur svolinn á mig svo gelmolarnir hrundu úr hárinu. Einu sinni þegar ég stóð í kebab-röð var ég kallaður "diskóhommi". Ég fattaði það ekki alveg. Ég var reyndar í rauðum jakka, það er kanski nógu flippað til að gefa í skyn að ég sé samkynhneigður og spilaði á bassa í Þú og Ég.

Ég segi að við prófum kúltúrskipti. Svona hópferðir þar sem litlir vinahópar skrá sig í "Hnakkapakkann" eða "Treflatrippið". Svo mun leiðsögumaður kynna fólki nýja og dularfulla heima. Í eitt kvöld getum við klofað yfir efrivaratóbakshrúgurnar og dansað við Grease-syrpuna á Hverfisbarnum. Þau geta öslað í skotgrafardrullunni á Sirkus og lamið plötusnúðinn.

Vinir?

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Mörg kunnum við sögur af samskiptum manna við einhverjar óværur af öðru tilverustigi. Drýsla af gráa svæðinu. Anda bannfærða af jörðu en útilokaða frá himnaríki... Drauga!

Ég luma líka á einni reimleikasögu sem gerist í dimmu og dularfullu húsi í Breiðholtinu fyrir mörgun árum síðan. Ég vona að þið séuð sitjandi, því þessi saga er FOKKING TERRIFYING! Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds við tilhugsunina eina!

Eina tunglslausa nótt vaknaði ég við svona "BÚWSSHJZZ". Ég hrökk við og spratt upp. Herbergið var mannlaust, en lampaskermurinn á loftljósinu sveiflaðist til og frá einsog einhver hefði slegið hann bylmingshöggi, ekki ósvipað og trymbill í lok rokklags. Mér varð ekki um sel, hljóp fram á gang og krýndi herbergið "reimt".

Sofið rótt! Múhaha!

sunnudagur, ágúst 06, 2006

Holy Shit!













Animal House er í sjónvarpinu!

Gobbedigobb

Burtreiðar eru skrítin íþrótt. Vann ekki bara sá gæji sem var með lengra prik?

muunsters

Af hverju eru þessir klossaklæddu leikskólakennarar alltaf að væla um genabætt kjét og grænmeti? Ég er þeirrar skoðunar að það að krukka í genum, pumpa sterum og að leika guð sé af hinu góða. Mundir þú ekki vilja borða vínber sem væri á stærð við sundbolta? Banana á stærð við hengirúm eða kirsuber á stærð við Pálma Gestsson?

Af hverju ekki að nota stera og gena-svall til að rækta nautgripi á stærð við loðfíl? Fyrir utan að geta fætt heilu þjóðirnar þá væri bara svo gaman að fara í húsdýragarðinn og sjá belju kremja smábíl undir hófum sér. Pælið í þessu æðislega sköpunar-legói sem við gætum verið að stunda: Loðnir krókódílar, ísbirnir með horn og tveggja hæða hestar. Ég er sannfærður að við getum náð því að gera svona með algeru siðleysi í vísindum og tækni.

EIns með okkur fólkið. Af hverju er alltaf verið að reka íþróttamenn sem eru á sterum? Mér finnst að það ættu bara að vera sérstakir stera-ólympíuleikar. The Steralympics, þar sem væri beinlínis hvatt til óhóflegrar notkunar á hvers konar dópi. Ég mundi sitja spenntur með genabættar mandarínur (svo stórar að þær skilja eftir sig 4 kíló af berki) og glápa á ómennsk skrímsli með titrandi vöðva stökkva jafnfætis yfir ellefu fet, hlaupa 100 metrana á fimm sekúndum og leggja sér svo áhorfendur til munns.