<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar/11318911?origin\x3dhttp://balladofbob.blogspot.com', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>





laugardagur, september 30, 2006

Nýjasti íbúinn í Grettisgötu 6

Segið hæ við Ólöfu:

Bjölli Borgar Bjórinn #2

Ég er orðinn þreyttur á rottunum á Kaffibarnum, gíröffunum á Barnum og pandabjörnunum á gólfinu á Sirkus. Ég kynni því til sögunnar nýjan lið í anda Krazy Frootz þar sem ég heimsæki og dæmi hverfispöbbana, þessa óslípuðu demanta drykkjumenningarinnar. Allir í strætó og skál í botn!


Hverfispöbb: Ölver
Staðsetning: Glæsibæ







Finnst þér gaman að sparka í tuðru? Færðu einnig nautn úr því að syngja fyrir téða tuðru? Þá viltu mæta niðrí Glæsibæ eftir lokun þegar sjónvarpið er stillt á Sýn og hækkað er í karaeoke maskínunni. Gríptu þér hljóðnema í hönd og settu á þig legghlífarnar og koddá Ölver! ...tuðran þín!














Staðurinn:
Ölver er stór að vexti og þar eru tveir salir, annar fyrir karaoke og þessháttar tuðruskap og hinn fyrir pool og lukkuskjái. Við Arna og Jónína skelltum okkur karaoke megin, enda er það nú það sem þetta snýst allt um. Salurinn er nokkuð karakterslaus. Bara stórt hvítt gímald með nokkrum flöktandi skjáum með dægurlagatextum.

Krádið:
Það var fámennt þetta kvöld. Þarna voru tveir hópar af karaoke skæruliðum, sem skiptust á að senda liðsmenn sína uppá svið til að battla. Gæði barkanna voru misjöfn einsog gefur að skilja. Allt frá nokkuð lélegu í tuðruslappt. En fólk var í stuði og allir sem sungu fengu klapp.

Þjónustan:
Allir starfsmennirnir líta út einsog dyraverðir. Þreknir menn með brunahanahandleggi og hár úr stáli. Þarna er eflaust mikið um bekkpressuveðmál í dimmu og sveittu bakherbergi eftir lokun. Bjórinn er á 600 kall, er kaldur og gerir mann drukkinn ef maður fær sér nógu mikið af honum. Standard bar semsagt.

Skemmtun:
Þetta er auðvitað karaoke bar þannig að músíkin fer eftir þeim sem vilja rokka mækinn hverju sinni. Þarna fengum við að heyra sláturhúsaútgáfur af öllu frá kántrý til diskó og mændum á útganginn þegar fólk fór yfirum í tuðrinu. En það sem hélt okkur þarna inni voru sprenghlægileg "myndböndin" undir textanum á skjánum. Við grenjuðum úr hlátri yfir berumaðofan kúrekum, púðaslagsmálum í fjaðrafoki og konum að mölva blómavösum.

Og hvað skeði?
Við urðum auðvitað að syngja eitthvað, annars væri tilvist okkar þarna býsna tilgangslaus. Eftir mikið flett í söngbókinni fundum við loksins lag. Ég tek nokkuð góða Michael McDonald eftirhermu og því völdum við Jónína 'What a Fool Believes' með Doobie Brothers (Arna tekur svona rugl auðvitað ekki í mál). En þegar á hólminn var komið var okkur sagt að við værum of sein til að panta lag. Þetta kom sér reyndar afar vel, því innst inni erum við gungur sem kunna ekki að syngja. Klukkan sló í tvær tuðrur og við örkuðum út og hurfum í myrkrið bæ-leiðis.

























Lokaniðursaða:
Það er örugglega voða gaman að mæta þarna með rútufylli af ólátabelgjum og ganga af göflunum með Kenny Rogers og Gloriu Gaynor en þetta kvöld var nokkuð simpilt og grásleppulegt.

Tvær tuðrur af fimm mögulegum.

Bongiorno

Björn Þór hefur kveikt aftur á tölvunni.

Hann mun væntanlega skrifa eitthvað um reynsluna að lifa án syngjandi vefbannera og stinningarlyfjatilboða frá nígerískum svikahröppum, en einmitt núna er hann farinn að steikja sér hamborgara með gráðost.

laugardagur, september 23, 2006

Chiao.

Björn Þór hefur slökkt á tölvunni sinni.

Hann snýr aftur að viku liðinni, vonandi ferskur og endurnærður.

Björn mun eyða tíma sínum í að lesa, ganga í fjörunni, spila á sekkjapípu og berjast við heiftarleg fráhvarfseinkenni.

Verið nú góð við Björn Þór og gefið honum skemmtileg komment og sæt ímeil svo það verði gaman hjá honum þegar hann kveikir á tölvunni aftur.


Ef söknuðurinn verður óbærilegur þá er síminn hans 868-0997 og hann á heima að Grettisgötu 6.

föstudagur, september 22, 2006

Glápt, bloggað og beðið eftir Svenna.

ARRG!!
Halla Vilhjálmsdóttir er allstaðar!!!

Mikið er rétt-upp-hend auglýsingin frá Fréttablaðinu ömurleg.

"Nokkur dýr undir forystu ljóns strjúka úr dýragarði í New York og enda í Afríku".
Bíddu.... er þetta lýsing á þessari mynd eða þessari mynd?

Mikið ofboðslega er lélegt Photoshop í skyr.is eina ósk auglýsingunni (brú til Eyja, kappakstur í miðborginni osfv). Mætti halda að ég hafi gert þetta.

ROSA ÆÐI! Fóstbræður frá upphafi á Stöð Tvö á laugardögum!

Hver er eiginlega að kaupa inn efni hjá Stöð 2?

Gamanþáttur með Freddie Prinze Jr ?!?

Nostalgía, nafn þitt er Björn.














...Þegar veðurfréttamennirnir á Stöð Tvö hentu svona segulstálum með hitastigunum á landakortið og gæjarnir á Rúv sneru kubbi og bentu með priki.

...Þegar maður fór með myndir í framköllun (muniði það!) og fékk svona post-it miða á sumar myndirnar, "Þessi mynd er tilvalin til stækkunar!"

...Gubbukalla-nammi.

Draumadís á Föstudegi 6


Edie Sedgwick

"Grænmetissúpútumallt!"












Sorry, ég einfaldlega kaupi ekki íslenskar bíómyndir. Íslenskir handritshöfundar virðast ófærir um að semja eðlilegt talmál og íslenskir leikarar geyfla sig og ofleika einsog þeir séu staddir á fjölum leikhússins.

(Ef við værum að tala saman augliti til auglitis mundi ég núna leika hvernig leikarar ofleika meiraðsegja í daglega lífinu. "Góðaaannn DAAGGIINNNN!! Jaaá, ERÞAAAÐÐ!!" (með villtum augngotum og handa-veifi))

Kanski get ég bara ekki trúað leikurum sem morðingjum, mæðrum, köfurum, flugmönnum, vitnum, meinatæknum eða víkingum þegar ég sé þá daglega útá videóleigu í joggingbuxunum.

Og hey, ER Ingvar E Sigurðsson voða góður leikari? Mér finnst hann venjulega gera lítið annað en að standa og horfa grafalvarlegur í myndavélina.












Ég vil enda þetta á léttari nótunum, með ljóði sem litli bróðir sendi mér á msn þegar ég spurði hann hvernig veðrið væri.

Heiðskírt veður
Sveitin mín
Kú og leður
Hestur og svín

fimmtudagur, september 21, 2006

upphátthugsun og vafur

Mjólk er góð til síðasta blóðdropa.

"Þetta var mátulegt á þig!" -Sagði klæðskerinn.

Hver var fyrstur til að biðja einhvern um high-five? Hver voru viðbrögðin?

Það er erfitt að spila alvarlegt lag á banjó. Að sama skapi er erfitt að spila glaðvært lag á pípuorgel.

Stelpur drekka bjór með röri.

Stundaskráin kom á milli segulsins og ísskápsins.

Pappírssnifsið fór í skrúðgöngu.

Hvað var málið með Borgarkringluna? Átti hún að vera í samkeppni við Kringluna? Hvaða gæji með balls of steel opnar aðra verslunarmiðstöð við hliðina á þeirri sem er fyrir og skírir hana hérumbil sama nafni? Krrrreisí.


#######


Sjitturinn, hvað nýja Bond-lagið er slappt.
Linkur
Madonna á reyndar ennþá skammarverðlaunin. Duran Duran voru bestir, en þeir gerðu lagið fyrir uppáhalds Bond-myndina mína 'A View to a Kill'.

Svikulir vísindamenn:
Linkur

Katrín hittir naglann á höfuðið varðandi Grapevine:
Linkur

Linkar í video með gömlum blúsköllum, fyrir þá sem fíla þannig (takk, Maggi).
Linkur

þriðjudagur, september 19, 2006

Kjams

Jújú það er komið haust.

Laufin úldin, kaffið kalt, koddaverin skítug, félaginn skotinn, dekkin sprungin, pollarnir djúpir, gamanið búið, barinn lokaður, konan farin, hundurinn strokinn, myndin bönnuð, kapphlaupið tapað, framtíðin svört, ástin kulnuð, úrið týnt, buddan tóm, glæponinn flúinn, páfinn særandi, aðgerðin misheppnuð, platan léleg, sárin blæðandi, inneignin búin og hinir dauðu ganga.

En hvernig getur maður dropið höfði og gefið upp von þegar maður á svona fyndna vini?

Arna og Laufey, megi grínguðirnir ávalt brosa til ykkar.

SÍÍS!

Í dag fór ég í tvær myndatökur. Annars vegar fór ég í lítinn bás með stól til að festa brosandi andlit mitt á filmu og gaf svo konu í bankanum myndina. Ætlunin var að setja inn nýja mynd og undirskrift á debetkortið mitt því ég var orðinn þreyttur á að horfa á bólótt sextán ára gelgjufés í hvert skipti sem ég dró upp plastið.

EN SÍÐAN! fór ég til læknis til að láta kíkja á hausinn á mér. Ég var sendur í röntgen, sem mér fannst afar spennandi enda mikill áhugamaður um innvolsið í okkur mannfólkinu. Ég spurði hana hvort ég mætti eiga eina mynd og það hélt hún. Hún tók því eina aukamynd af mér og að sjálfsögðu notaði ég tækifærið og geyflaði mig:



HA! Sko mig að innan! Það má jafnvel greina augun ef vel er að gáð. Og ef þú ert læknir ættir þú að sjá strax að ég er með sýkingu í ennisholunum. Reseftið hljómar uppá penisillín og nasaúða.

Bónus!


Sjáiði bara þessa! Þetta er bara einsog kápan á Fright Night!

sunnudagur, september 17, 2006

Bjölli Borgar Bjórinn #1

Ég er orðinn þreyttur á bolunum á Kaffibarnum, blindandi ljósadýrðinni á Barnum og mannaskítnum á gólfinu á Sirkus. Ég kynni því til sögunnar nýjan lið í anda Krazy Frootz þar sem ég heimsæki hverfispöbbana, þessa óslípuðu demanta drykkjumenningarinnar. Allir í strætó og skál í botn!



Hverfispöbb: Kringlukráin
Staðsetning: Jújú, Kringlunni
www.kringlukrain.is





Steinsnar frá ysinu í Hagkaup, Deres og Lottóbásnum má finna notalegan stað þar sem maður getur lagt frá sér Bónuspokann og drukkið daginn í burt. Þarna er boðið upp á mat og drykk og eru sérstök tilboð fyrir leikhúsgesti. Ball um helgar og þá kostar heilan 1200 kall inn eftir miðnætti. Við Jónína mættum auðvitað fyrir þann tíma. Við sátum á litlu borði aftarlega og drukkum í okkur bjór og stemningu.













Staðurinn:
Kringlukráin er nokkuð stór pöbb. Það er svona gamaldags Evrópskur kráarfílingur yfir öllu, með dökkum viðarmubblum, berum múrsteinum á veggjum og borðljósum með marglitum gler-kúplum. Allt mjög þrifalegt og næs.

Krádið:
Mestmegnis fólk á efri árum. Mamma þín situr þarna með Gurrý úr vinnunni og drekkur belga og reykir Capri. Heldrimenn mæta í jakkafötunum sínum og hressir kallar kjaga um gólfið með Sigmundar Ernis hatta. Einn var með svartan leðurkúrekahatt og vesti í stíl. Eini kúninn þarna inni sem var okkar megin við fimmtugt var ungur maður með hækju sem sat með móður sinni.

Þjónustan:
Kringlukráin er með alla Egils-línuna á krananum og rukkar 600 kall fyrir. Okkur fannst við reyndar svikin um öl þegar glösin voru ekki fyllt alla leið að litla "0.5l" strikinu, en að öðru leiti var þjónustan tipp-topp. Starfsfólkið er kurteist atvinnufólk með bros á vör og ég verð að gefa þeim aukaprik fyrir að taka drykkjapantanir við borðið manns.

Skemmtun:
Þegar við mættum var Creedence í botni og þá vissi hvert stefndi. Frameftir kvöldi fékk klassíska rokkið að hljóma innan um nokkra diskó- og eitíssmelli. Uppúr miðnætti steig svo húsbandið á svið og taldi í. Það var ekki komið að fyrsta viðlagi þegar hver einasti kúnni var rokinn á dansgólfið í sveiflandi sveiflu og mjaðmagigtin fékk ærlega að kenna á því. Bandið spilaði Bítlalög, soul-standarda og íslenskt í bland. Sérstaklega þótti mér gaman að heyra þá taka 'Róninn' með Ríó Tríó.

Og hvað skeði?
Á meðan ég býsnaði mig yfir flugunum sem voru prentaðar á innanverðar þvagskálarnar á snyrtingunni var jónína umsetin af gömlum köllum með kúrekahatta sem vildu bjóða henni í dans. Hún útskýrði svo ráðgátuna með flugurnar fyrir mér, að þær væru þarna ofaní svo maður miði á þær, en ekki á gólfið. Það er auðvitað alveg rétt, það fór ekki dropi til spillis. Það vantar svona flugur á Sirkus svo fólk hætti að míga á veggina.












Lokaniðursaða:
Fínn staður! Notalegt andrúmsloft og góð þjónusta. Fastagestirnir eru krúttileg gamalmeni sem kunna sko að dansa.

Fjórir öskubakkar af fimm mögulegum.

föstudagur, september 15, 2006

Draumadís á Föstudegi 5

Abi Harding

fimmtudagur, september 14, 2006

Damon vs Kimmell

Virkilega hlægilegar tvær mínútur og fjörtíuogfimm sekúndur:

miðvikudagur, september 13, 2006

Hættiði þessu, þarna sloppaklæddu dusilmenni!!

HA! Núna heitir Plútó ekki einu sinni lengur Plútó!

Þessi ástkæri himnabúi hefur verið sviptur nafninu og heitir núna "134340".

Slæm frétt

Ég sé næstu frétt fyrir mér:


PLÚTÓ VERÐUR SPRENGD Í ÖREINDIR SÍNAR
Washington - Vísindamenn Bandarísku Geimferðastofnunarinnar, NASA, tilkynntu á blaðamannafundi í dag að smástirnið 134340 verði þurrkað út úr sólkerfinu í gríðarlegri kjarnorkusprengju. "Þetta smástirni hefur verið okkur fjötur um í fót í marga áratugi og við viljum klára þetta í eitt skipti fyrir öll." Sagði dr. Timothy Griffin við orðlausan hóp blaðamanna. "Við höfum því ákveðið að þessi plánetuleysa skuli sprengd úr augsýn jarðarbúa og sólkerfisins alls með ógnarmætti kjarnorkusprengjunnar."

Vísindamennirnir fullvissuðu viðstadda að eldflaug sem innihéldi kjarnorkusprengjuna yrði skotið á loft ekki seinna en 2015. Griffin bætti við, "Allar þær agnir sem lifa af sprenginguna verða svo gefin handahófskennd talnarunu-nöfn áður en þær verða sprengdar með minni kjarnorkusprengjum."

912 dagar fyrir líf

Þann 12 desember 2004 var Ragnar Björnsson að skemmta sér með konu sinni og syni í veitingahúsinu Ásláki í Mosfellsbæ. Þegar Ragnar var á leiðinni út af staðnum réðst að honum ofsadrukkinn maður sem gaf Ragnari þungt hnefahögg í andlitið. Slagæð í höfði Ragnars rofnaði við höggið og hann lést nær samstundis vegna mikillar blæðingar inn á heila.

Loftur Jens Magnússon, maðurinn sem gaf Ragnari banahöggið, hefur gengið laus undanfarin tvö ár meðan hann hefur beðið dóms. Í dag féll svo dómurinn í héraði.

Loftur Jens Magnússon, sem af fullkomnu tilgangsleysi rændi ókunnugan mann lífinu á grimmilegan hátt fyrir framan konu hans og barn, fékk tvö og hálft ár fyrir verknaðinn.

Stundum fórnar maður bara höndum. Ég skil þetta ekki. Hvað við þetta morð réttlætir svona mildan dóm? Hann var reyndar "verulega ölvaður" og allir vita að það er afsökun fyrir öllu.

Ef það er til helvíti, þá veit ég að Loftur Jens Magnússon mun enda þar. Kanski það sé besta refsingin fyrir svona ómenni. Þangað til mun hann væntanlega lifa langri og ánægjulegri ævi á meðan fjölskylda Ragnars hefur ekkert nema minningarnar.

Grein um málið.

Ég þarf að gera eitthvað í þessari nostalgíu í mér.

Mér var sagt í gær að sennilega elskaði enginn hverfið sitt meira en ég elska Breiðholtið og það er væntanlega rétt. Hvert götuhorn í gamla hverfinu mínu fyllir mig af slíkri nostalgíu að mér er helst nærri skapi að falla á kné einsog páfi og kyssa jörðina (í hófi þó). Þar er gangstéttin þar sem nafnið mitt er krotað í steypuna. Þar er leikvöllurinn þar sem ég bæði át sand og stalst til að reykja mína fyrstu sígarettu áratug seinna. Svo er þar auðvitað ættarsetrið að Engjaseli 41 þar sem ég eyddi fyrstu 23 árunum mínum.

Mamma og pabbi eru svoddan heimshornaflakkarar að ég er reglulega fenginn til að passa hús og gæludýr yfir helgi. Ég neita aldrei tækifærinu að eyða tíma í gamla húsinu og ég reyni alltaf að taka rúnt eða labbitúr um hverfið þegar ég er þar. Breiðholtið hefur auðvitað breyst mikið, hús eru fegruð (Æsufellsmonsterið er núna klætt með fínu bárujárni), nýjar byggingar spretta upp og Kópavogurinn umlykur síðan alltsaman, einsog maðkur um gull.



Kjöt og fiskur
Þarna uppi á efri hæðinni var videoleiga sem ég man ekki hvað hét. Þar voru leigðar allar þær Rambómyndir og bannaðar-innan-sextán sem hugurinn girndist. Ég man þegar það opnaði pizzubúlla þarna uppi. Hún hét Pizza Mussolini og við strákarnir dreifðum miðum um hverfið og fengum pizzur í staðinn. Þarna uppi eru íbúðir í dag. Á hægri endanum var lítil sjoppa þar sem ég keypti Breikpinna, Glætur, krónugúmmí og Beverly Hills 90210 tyggjó (með límmiða) þegar ég var lítill. Síðan fylgdist ég með þegar Okkar Video opnaði á hinum endanum og rak hana burt. Sú megasjoppa var og er videoleiga, grill, sjoppa, Lottó og ísbúð. Litla sjoppan átti ekki séns. Þetta er leiðinleg þróun sem enn er í gangi um alla borg, að litlu hverfissjoppurnar hverfa fyrir einhverju Bónusvideo-skrímsli. Húsnæðinu var fyrst breytt í sólbaðsstofu en er núna leiguíbúð. Matvöruverslunin í miðjunni hét áður Kjöt og Fiskur en heitir núna Þín Verslun.


Jói Risi
þarna á efri hæðinni var hverfispöbbinn. Þegar ég var skemmtanastjóri í FB var Risinn hálfgerð félagsmiðstöð fyrir okkur í nemendaráðinu. Allir þekktust, gestir sem starfsfólk og það besta er að kærastan mín á þeim tíma vann þarna. Ég drakk semsagt frítt, spilaði eins mikið pool og ég vildi og fékk að ráða tónlistinni. Mögulega besti tími lífs míns, nú þegar ég hugsa um það. Núna þegar ég bý í miðbænum sakna ég hverfispöbbastemningarinnar, sérstaklega þegar ég er í blindfullum troðningi, vaðandi kúk og piss og með ærandi tekknó í eyrunum.


"Verkamannablokkirnar"
Flestir vinir mínir þegar ég var táningur áttu heima í einhverjum af þessum blokkum sem voru kenndar við verkamenn. Núna eru þær málaðar í einhverjum lillabláum og gulum Miami Vice litum en í gamla daga voru þær bláar eða rauðar í stíl við grotnandi steypu. Við drukkum landa og þrömmuðum um þessa gangstétt einsog við ættum hverfið (sem við gerðum). Þegar það var of kalt og ekkert partý í gangi tróðum við okkur inn í eitthvað fordyrið, þar sem póstkassarnir og dyrabjöllurnar eru, til að hlýja okkur. Einu sinni drapst ég í einhverjum stigaganginum og var vakinn um morguninn af fólki að fara í vinnuna. Ekkert svo góð minning.


Seljavideo
sætsúru minningarnar halda áfram þegar maður lítur á þessa Bónusverslun í Tindaseli. Þar var áður Seljavideo, sem var einfaldlega okkar home-turf. Þetta gula skýli var ekki þarna, heldur var svona stétt fyrir utan. Þar stóðum við og reyktum sígarettur sem gæjarnir inni seldu okkur í stykkjatali. Þarna var hangið öll kvöld og allar helgar þegar landi var drukkinn. Landasalar komu að Seljavideo einsog bókabíllinn til að hirða af okkur pening. Þeir ákváðu svo að spara sér sporin og hleyptu okkur inn í bissnessið. Allir vinir mínir (nema ég) voru landasalar á einhverjum tímapunkti. Sú sala þróaðist svo í spítt og E. Satt að segja voru mín mið-unglingsár í Seljahverfinu ekki ánægjuleg. Allar mínar minningar frá þessum tíma gerast í myrkri og eru um drukkna vini, slagsmál, dramatík og eymd. Sumir af þessum gæjum komu út á hinum endanum sem sjúklingar, fíklar eða ónýtir fyrir lífstíð. Sumir látnir. Margir eru þarna enn, í sportsöndulum og flíspeysu í spilakassa með sjö börn í eftirdragi.


Ölduselsskóli
Þetta var grunnskólinn minn. Fyrstu árin voru æðisleg. Fótbolti á sumrin, "rúbbí" á veturna og vangadansar á skólaböllum. Síðan fór þetta yfir í að þykjast vera glæpon og að níðast á minni máttar. Starfsfólk skólans réði engan veginn við ástandið. Okkur fannst við vera kaldrifjaðir gangsterar og smygluðum áfengi, hnífum og eiturlyfjum í skólann og á böll. Við héldum skólanum í heljargreipum (eða svo fannst okkur. Hinir krakkarnir vorkenndu okkur auðvitað meira en nokkuð annað. Ég komst að því seinna að þau lifðu öll skemmtanalífi á bakvið okkur, sem hljómaði miklu skemmtilegra en ruglið í okkur). Auðvitað hékk ég með kolröngum félagsskap og það tók mig mörg ár að komast að því og drulla mér út.

En þetta var ekki allt martraðarkennd unglingadramatík! Ég var í plötusnúðaráði og fannst það æðislegt. Helstu smellirnir sem koma upp í hugann eru 'Disco's Revenge' með Gusto, 'Fired Up' með Funky Green Dogs og auðvitað 'The Bomb' með The Bucketheads. Þegar ég var að klára 10. bekk kom svo 'Homework' með Daft Punk og sú plata gjörsamlega klauf höfuðið á mér í tvennt svo að heilinn lá úti. Mjög góð, semsagt. Að plötusnúðast var það eina við þetta alltsaman sem var skemmtilegt. Þangað til við fíflin klúðruðum því auðvitað líka og vorum reknir.

Ég hef aldrei mætt á reunion. Bæði vegna þess að ég vil ekki sjá sumt af þessu liði aftur og líka því ég skammast mín fyrir hvernig ég var á þessum tíma. Bú-friggin-hú.


Íssel
Í Ölduselsskóla stunduðum við Íssel (til hægri) í frímínútum og eftir skóla. Þau voru með æðislegt örbylgjuhamborgara-og-sjeik tilboð og þau bjuggu til ljúffengan ís með tyggjóbragði. Í húsinu til vinstri var svo videoleiga, Myndbandaleigan Mynd. Þar vann ég fyrir lúsarlaun, en þetta er umdeilanlega skemmtilegasta vinna sem ég hef verið í. Gæjinn sem átti þetta var alger braskari og kenndi okkur að setja peninginn beint í kassann (án þess að stimpla hann inn) þegar börn leigðu spólur. Í þá átta mánuði sem ég vann þarna var aldrei þvegið né skúrað. Það var pantað eitt eintak af hverri spólu og deginum eyddi maður í Playstation eða að horfa á klámið sem var leigt undan borðinu. Einu fastakúnnarnir voru greyin sem stunduðu spilakassann í horninu. Yndislegur tími af ókeypis videospólum og Bragðarefs-áti.


Andapollur
Minningarnar úr ungri barnæsku eru um að flýja undan "villingum" (pönkurum), Stórubrekkuna (þar sem maður fór á sleða) og Andapollinn. Í eitís var Pollurinn ekki sú fjölskylduvæna náttúruperla sem hann er í dag. Þetta var illa lyktandi og rotið drullusvað. Maður spændi þarna um á BMX hjólinu sínu og skeit út húmmel-gallann sinn í forinu. Núna er þetta fögur tjörn með sílum og stiklusteinum. Ég kýs heldur drulluna.


Hólmasel
Félagsmiðstöðin Hólmasel er þarna til hægri. Þar fórum við að hanga þegar við máttum ekki lengur mæta á böll í Ölduselsskóla. Þar kynntumst við vinkvennahópi úr Seljaskóla og úr varð fínasti vinahópur af fyllibyttum. Þarna til vinstri var og er sólbaðsstofan Súpersól. Eitt gamlárskvöldið safnaðist allt hverfið saman þarna á stéttinni og við bjuggum til okkar eigin Watts-óeirðir. Við sprengdum rakettur í ruslatunnum og mölvuðum rúðum. Ég man hvernig fólk braust inn í sólbaðsstofuna og stal öllu steini léttara. Svo kom löggan með sírenur og brunaboðavæl og maður flúði í mannmergð og reykjarmökk með fangið fullt af sólkremi og með stráhatt á höfði.



Seljaskóli
Ég á sælar minningar frá þeim árum sem ég stundaði hjólabretti með nokkrum strákum sem gengu í Seljaskóla. Við skeituðum þarna allan daginn og á kvöldin tókum við upp litlar stuttmyndir og aðra vitleysu. Mér þótti ákaflega leiðinlegt að sjá að ummerkin um þá tíma eru alveg horfin. Minirampurinn er farinn og í staðinn er kominn einn af þessum sparkvöllum með gerfigrasi. Portið fyrir aftan íþróttahúsið er núna húsagrunnur. Þar eyddum við heilu dögunum í að smíða grindbox, bánks og kickoffs (jújú lingóið enn á sínum stað). Við vorum oft með gettóblaster með okkur og graffararnir í hverfinu máluðu veggina. Ég fór á algeran bömmer þegar ég sá að portinu okkar hafði verið mokað burt. Bú á framför!



Gæji sem lifir eins mikið í fortíðinni og ég mun alltaf verða þjakaður af nostalgíu. Þrátt fyrir að ég hafi átt nokkur skitin ár þarna þá hefði ég hvergi annars staðar viljað búa. Ég get lýst þessum stöðum hér að ofan fyrir hverjum sem er, þetta eru kennileiti sem ættu að vera öllum Breiðhyltingum kær. En það eru litlu staðirnir sem ég einn kannast við sem vekja sterkustu tilfinningarnar hjá mér. Ég gæti aldrei lýst spennunni þegar við förum í byssó í húsagrunninum í Dalseli eða hvernig lyktin var inni í sjoppunni þar sem gæjarnir úr Fellunum ætluðu að berja okkur.

Mér finnst yndislegt að vita að það er til hverfi þar sem ég get staðnæmst við ákveðinn bílskúrsvegg og langað til að gráta af gleði því þar er enn sama Sigue Sigue Sputnik veggjakrotið og fyrir 20 árum síðan.



Skál fyrir Stórakastala, Grasvellinum, Dansiblettinum, Leynistaðnum, göngunum, Alaskabrekkunni, "undir Mjóddinni", hundaskítstunnunni sem við sprengdum í loft upp og öllum hinum stöðunum sem enginn kannast við nema ég.

þriðjudagur, september 12, 2006

Les

Nokkrar bækur sem ég hef sankað að mér síðustu mánuði:

Kortagerð forn-Grikkja
Leyniher Gorbachevs
Ástkonur dr. Mengele
Glitter um Glitter
Tarzan og leynispjótið
Sæmundur með sextán skó og aðrir vatnsberar Reykjavíkur 1830-1930

mánudagur, september 11, 2006

Ég er viss um að tólfta september finnst hann vera dálítið útundan.

laugardagur, september 09, 2006

Martraðarkennd sýn

Grenjandi barn í afmæli. Sveitt, rautt og öskrandi með kökukrem kringum munninn. Ógeðslegt.

föstudagur, september 08, 2006

Draumadís á Föstudegi 4

Stevie Nicks

fimmtudagur, september 07, 2006

wtf

Spron mokar peningum í mann sem þarf ekkert á því að halda

Hvað djöfulsins rugl er þetta? Hann er að keppa í raunveruleikaþætti þar sem í verðlaun eru ríkidæmi og frægð, ekki að berjast fyrir lífi sínu og sveltandi fjölskyldunnar í Eþíópísku eyðimörkinni. Af hverju á hann skilið að fá 500.000 kall á viku en ekki ungir tónlistarmenn sem eiga ekki efni á gítarstreng?

Fyrst að Spron er að gefa pening, má ég fá?

PS
Þetta er síðasta færslan mín um þennan skrípaleik sem þetta Rockstar/Magni/þjóðin-stendur-saman fyrirbæri er orðið.

miðvikudagur, september 06, 2006

MAGNAVAKA?!?

Af hverju geta ekki einhverjar skötur mætt í sjónvarpssalinn?

þriðjudagur, september 05, 2006

Jump Baby

Edrú Birni finnst alltaf gaman að heyra sögurnar af fulla Birni.

Þetta var víst pikköpplína helgarinnar:
Hey baby, yer halfway over the Björlin Wall. Why don't you jump on the mattress below?














Að ofan:
Fulli Björn (AKA Bjölli) hrellir saklausar stelpur á djamminu

"Unglingsstúlkur ógnuðu lögreglu í Reykjavík"

Frétt

"var munnsöfnuður stúlknanna óhugnanlegur"

Haha, ég er viss um að þetta er Breiðholtspakk. Þekki stílinn.

Af morðóðum skötum

Hrottalegt morðið á Steve Irwin hefur leitt af sér
hermikrákuárás hér á landi:
Linkur

Það kemur reyndar ekki fram hvort hnífurinn hafi verið festur við langan hala árásarmannsins, en það er augljóst að í glæpamönnum um allan heim er komið upp sjávardýralegt drápseðli sem verður að stemma stigu við!

Ég meina, Steve Irwin! Þessi hetja, kappi og krókódílaskelfir. Felldur af SKÖTU! Við verðum að finna þennan morðingja hafsins og stoppann upp!


mánudagur, september 04, 2006

Dagur án nostalgíu er dagur ánægjulaus

Hver verslaði í Hazar Bazar?

Í pappakassa nokkrum í gamlahúsi í Breiðholti liggja minningarnar samanbrotnar. Gríðarstórir og litríkir bolir sem ég keypti í þessari yndislegu hjólabrettabúð (starfrækt í örlí næntís), sem var falin undir hjólabúðinni Erninum í Skeifunni.

H-Street, Underworld Element, New Deal, Plan B og Santa Cruz. Það voru sko merki sem sögðu sex. Brettin auðvitað löngu spænd upp í agnir, en flíkurnar lifa enn. Gömlu skeitmyndirnar kúra enn á segulböndum í öðrum pappakassa.

Listasafn Reykjavíkur er í viðbragðsstöðu.

Er'ekki allir búnir að kaupa sér miða?
Ekki nema svona 4900 stykki eftir.

Hvers lensk er hljómsveitin?

Ég meina, þið vitið um íslenska gæjann í 'Yellow Submarine' með Bítlunum ekki satt?

Fyrir þá sem ekki vita: Um það bil eina og hálfa mínútu inn í umdeilanlega lélegasta Bítlalagið kemur svona breakdown, þar sem vélarnið má heyra og menn að hrópa kafbátatengdar skipanir. Skyndilega heyrist talstöðvar-múffluð rödd hrópa hátt og snjallt:

"Hljómsveitin er íslensk!"

Var einhver Mosfellingur að ráfa um stúdíóið og fékk að vera með? Eða var hann kanski frá Súgandafirði? Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að þetta sé ástkært og ylhýrt, en ekki bara misheyrningur. Ég bendi á hvernig hann klárar orðið "íslensk". Þar má heyra framburðinn á þessu harða 'K' á eftir samhljóða, sem enginn nema íslendingur gæti leikið eftir. Og hey, ég bara þekki mitt mál þegar maður í kafbátaáhöfn hrópar það í gjallarhorn!

EÐA HVAÐ? Um helgina kom þetta mál upp í hópi fólks og margir voru efins. Veit einhver betur en ég? Eru Bítilfróðir í húsinu?

Hér er allt lagið. mp3

Hér má heyra línuna sem um ræðir, einangraða. mp3

Strewth!

Krókódílarnir hans Jesúsar hafa hitt jafningja sinn.
Linkur

laugardagur, september 02, 2006

Jésús H. Kristur

Ég skil þetta ekki. Hvernig gátu þeir verið að lesa hugsanir mínar? Hvernig vissu þeir að ég bað ekki um meira í lífinu en FOKKING KASSETTU-GENERATOR!!!

WÁÁÁ!!!
Linkur

föstudagur, september 01, 2006

Draumadís á Föstudegi 3


Roisin Murphy

Rrr

Viltu ekki bara kýla þennan rangeygða þvottabjörn í andlitið? Ég hata gothara meira en Evrópuhippa!