<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar/11318911?origin\x3dhttp://balladofbob.blogspot.com', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>





þriðjudagur, janúar 30, 2007

Ljót og fyrirferðamikil lyklakippa.

Jæja... ég gaf undan og virkti þennan Auðkennislykil... með mikilli gremju.

Crazy shit maaaan

Fólk í dag tengir næntís aðallega við júrótransið, neon, hvítar gallabuxur og þessi félagsmiðstöðvatekknóböll sem Curver og hún þarna gella eru alltaf að halda. Mér finnst sá tími (1990-1994) aðallega vera rökrétt framhald á eitís.

Fyrir mér einkennist næntís af Sæberspeis.

Allt sem tengdist tölvum, vélmennagreind og gerfiefnum var inn. Mangateiknimyndir urðu vinsælar og fólk klæddi sig í gúmmíbuxur og 20cm háa platform hermannaklossa með stálplötum skrúfuðum á. 1995-1998, þegar fólk lifði í framtíðinni. Pamela Andersson var rúnkfantasían í gúmmítreyju strekktri yfir sílikonbrjóstin, öll photoshoppuð þangað til hún virtist vera úr plasti. Oz vildi að við gætum öll sængað hjá framtíðinni í gegnum fantasíuheim tölvunnar og æskan horfði á X-files og trúði á geimverur. Tölvuletur, drumNbass, skyrtur sem breyttu um lit, geimskip og kynmök í gegnum irkið. Fólk tattúveraði á sig strikamerki alveg einsog þrælarnir í tölvustýrðum post-apocalypse veröldum í framtíðarmyndum. Fólk dýrkaði tækni og tölvur svo mikið að allt í einu voru tölvuhakkarar kúl.

Gleymið því Dr. Alban, Snow, gellunni úr 2 Unlimited og Palla Banine. Ég vil kynna ykkur fyrir manninum sem ÉG tel vera hinn sanna holdgerfing næntís:


Matthew Lillard

Matthew lék í aragrúa næntísmynda og alltaf sem sami karakterinn: horaður og athyglissjúkur furðufugl sem geyflar sig og djókar og nær einhvernveginn að vera stónd og ofvirkur bæði í einu.

Matthew Lillard er manneskjan sem þótti kúl þá: Lúðinn sem er kúl fyrir að vera lúði. Tölvunördinn sem mætir á trans-reif og sér um ormagöngs-ljósashowið. Myndin sem breytti honum í konung sæberspeis-næntís var þegar hann var lék í Hackers. Alveg hreint hörmuleg mynd þar sem fólk heitir 'Acid Burn' og Crash Override' og eru í svona mótorhjólajökkum og spennitreyjupeysum. Alger draumur nostalgíunördsins.

Ég segi að við skiptum þessum Ace of Base kvöldum út fyrir Hakk-keppnir þar sem við drekkum sýrublandaða orkudrykki og dönsum með svona virtual reality hjálma á höfðinu.

"Yo, 'Psych Circuit' komst inní mainframe-ið hjá Seðlabankanum! Brjálað! Hækkaðu í The Orb og koddu með USB-Gerfipíkuna."

laugardagur, janúar 27, 2007

Shjokkólaah (með frönskum hreim)

Einn burðarstólpi íslenskra mjókurafurða (og matvæla yfir höfuð), Kókómjólkin, er komin með keppinaut:



Mér finnst þetta stórfréttir. Það eru núna til TVEIR mjólkurdrykkir með súkkulaði. Ég var fyrst nokkuð skelkaður þegar ég rak augun í þetta. Má þetta? Kókómjólkin er Ísland. Það sem gerir landið okkar svo yndislegt er að við eigum remúlaði, harðfisk, Lindubuff, Maltöl og KÓKÓMJÓLK. Þetta eru stórir skór fyrir Mjólku að fylla.

Ég keypti mér semsagt Kappa og þambaði hann. Ég hnusaði og hummaði. Ég sveiflaði tungunni og gaf frá mér skrítin búkhljóð. Alveg einsog kókómjólkursmakkararnir í Frakklandi. Ég reyndi að hafa opinn huga við smökkunina þrátt fyrir mikla fordóma til að byrja með.

Kókómjólk er auðvitað ekkert einsdæmi í heiminum. Það er auðvitað til súkkulaðimjólk í útlöndum, en engin þeirra er einsog Kókómjólkin OKKAR. Það er bara eitthvað spes við hana sem er ekki hægt að leika eftir. Kappi er á bragðið einsog súkkulaðimjólk sem maður kaupir í útlöndum. Alveg nákvæmlega eins. Algert Pascual-sull keypt í Tesco og Walmart. Gerfi.

Kappi, einsog ekki-innlend súkkulaðimjólk er bara vatn með mjólkur- og kakódufti helltu útí. Kókómjólk, hin eina sanna, er bókað mál kreist úr einhverri ævintýrabelju með súkkulaðispena, sem þeir fela í einhverjum skáp einhverstaðar.

föstudagur, janúar 26, 2007

Sniffó

Sko. Það er alger fásinna að kaupa dýrt kókaín til að táldraga ódýrar gellur. Lausnin er furðu augljós: Að vera bara með GERFIKÓK:

Synth Coke

Sjiiii. Það ætti einhver ló-læf að grafa upp kennitöluna hjá Buzz Productions og koma þessu aftur í sölu í öllum betri klámbúðum og þjóðvegabensínstöðvum landsins. Maður fengi pottþétt að ríða útá þetta hér í bæ, ekki satt?

Draumadís á Föstudegi 23


Brigitte Bardot

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Hugvit

Þegar ég horfði upp á eldabuskuna mína basla við að koma ósamvinnuþýðu spagettí ofan í sjóðandi pott, spurði ég sjálfan mig hví það væri ekki búið að framleiða langan og mjóan spagettípott. Væri það ekki sniðugt?

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Öhh

Það eru fáir sem fara eins mikið í taugarnar á mér og Jared Leto, sá óforbetanlegi douchebag.

OJJ!!
BJAKK!!
DJÍSASSS!

Trúiru því að þetta gerpi verður ÞRJÁTÍUOGSEXÁRA í ár?

Sko, glugginn fyrir að vera grenjandi EMO kvensnift sem hatar fósturforeldra sína lokast daginn sem þú verður tvítugur. Þurrkaðu þennan ógeðslega glimmer augnskugga frá ömmu þinni framan úr þér og VERTU KARLMAÐUR!! GROW UP!!

Almáttugur, ég vil bara löðrunga þennan einfelding með sál 13 ára drengs.

mánudagur, janúar 22, 2007

Trekk í trekk flettirekk kartöflusekk

sunnudagur, janúar 21, 2007

SPREÐ

Ég var að heyra lýsingarnar úr fimmtugsafmælisveislu Ólafs Ólafssonar, stjórnarformanns Samskipa. Jiminn eini. Risasal í Vogabakka var breytt í svona hunting lodge (veiðikofa) og japanskar geishur (innfluttar) báru fram sushi eldað af meistarakokkum sem voru flognir inn frá Nobu í London. Elton John steig á svið einsog frægt er orðið og tók klukkutíma sett sem kostaði milljón dollara. Bó, Bubbi og eitthvað risaband héldu svo uppi stuðinnu fyrir 3 millur. Allt boðið kostaði hátt í 200 milljónir. Ég vildi fyrst kvarta yfir svona eyðslusemi (það mætti búa til skýli fyrir heimilislausa eða eitthvað) en þau settu víst á fót milljarðs velferðarsjóð fyrr um daginn. Gottogvel. Vildi hafa verið á staðnum.

Mér finnst svolítið fyndið þetta trend hjá trilljarðamæringunum okkar að keppast um að láta stórstirni spila í veislunum sínum. Í alvöru, þessir gæjar eiga meiri pening en guð og að púnga út fyrir Duran Duran eða Elton John er einsog fyrir okkur að kaupa pott af mjólk. Þessir dúdar eiga milljarða og milljarða og milljarða og tugi milljarða ofan (djís hvað ég er öfundsjúkur) og það er bókstaflega ekkert sem getur stöðvar þá í extravagansinu. Ég lofa að þetta mun vinda uppá sig þangað til Dagsbrún eða Kaupþing verða með árshátíð þar sem U2 kemur fram.

Svona í alvöru, af hverju að láta stutta tónleika með Rod Stewart vera hámarkið? Hví ekki að láta Steven Spielberg gera kvikmynd um lífshlaup sitt? Hvernig væri að flytja heila flugvél af Hollywoodstjörnum, íþróttahetjum og sjónvarpsstirnum og Paris Hilton í partýið til að mingla við gesti? Hvernig væri að láta moka upp pýramída og endurreisa hann í Egilshöllinni og fá Kofi Annan til að kynna á svið Rolling Stones með sinfóníuhljómsveitum fjögurra landa og hafa eftirlifandi Bítlana sem bakraddir?

Mitt trilljarðamæringsafmæli væri svona:
Mjög útvaldir 1000 manns fá boðskort úr fílabeini þar sem fólki er sagt að vera í viðbragsstöðu 30 október. Þá mundi hver einasti gestur fá eigin einkaþyrlu til að sækja sig. Það væri búið að taka Hringleikahúsið í Róm í sundur og setja það aftur saman innan í Kringlunni, sem væri búið að tæma og breyta í partýsal með geim-þema (með ekta sandi og grjóti af Tunglinu). Í Hringleikahúsinu væru skylmingaþrælar með bardaga upp á líf og dauða. Mannfórnir og slátrun á fágætum dýrum. Dalai Lama væri í fatahenginu og liðsmenn Dallas Cowboys þjónuðu til borðs. Í matinn væri zebrahestasteik með sósu úr snákamerg. Vatn úr bráðnuðum heimsskautaklaka. Svo væri bjór-krani við hvern disk. Skemmtunin yfir borðhaldinu væri í höndum Mel Gibson og Dorrit Moussaief sem hefðu lært á hörpu og trommur. Svo kæmu tónleikar þar sem Bó, Justin Timberlake, Van Halen, Bob Dylan og Elvis (sem hologram) væru allir saman á sviði. Kvöldinu lyki svo úti á bílastæði þar sem allar þyrlurnar yrðu sprengdar í gríðarlegri flugeldasýningu og væri kveikiþráðurinn tendraður með logandi Guðbrandsbiblíu.

En þetta er bara fyrsta hugmynd. Ætli ég bæti ekki við partý-júmbóþotunni hans John Travolta sem flygi um heiminn til að elta afmælisdaginn í gegnum hin ýmsu tímabelti...

Kúgast

Félagi minn var einu sinni með erlendan vin sinn í heimsókn. Þjóðverja að mig minnir. Eins og við mætti búast skemmti þessi ferðalangur sér konunglega á landinu og var sáttur og sæll þegar félagi minn skutlaði honum út á flugvöll. Á leiðinni rekur ferðalangurinn augun í skilti þar sem verið var að auglýsa Voga ídýfuna vinsælu. Það glaðnar yfir kappanum þegar hann sér þetta skilti og hann tilkynnir fólkinu í bílnum,

"Hey, þetta er geðveikt góð jógúrt mar!!"

Félagi minn og konan hans horfðust með hryllingi í augu og höfðu ekki hjartað í sér að segja honum sannleikann.

föstudagur, janúar 19, 2007

Draumadís á föstudegi 22


Sophia Loren

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Mmmmmmm

OK það besta við að búa í miðbænum er kexverksmiðjan sem pumpar ljúffengri vanilludropa/nýbakað/ömmueldhúslykt um bæinn. Þetta er einsog að vera táldreginn af lyktinni úr teiknimyndunum, sem vefur lögulegum fingri um andlit þitt og dregur þig svífandi um Laugaveginn fullan af kex-gleði.

Athugið að þessi unaður endist aðeins að bankastræti, þar sem einhver fiski-og-hundaskíts-bræðslu-fnykur tekur við.

Má ekki vera kexverksmiðja í hverju hverfi? Ég lofa að geðlund borgara mun fjúka upp í gegnum þakið. Pant fá Breiðholtskex á morgnana.

mánudagur, janúar 15, 2007

Grýlukerti

Ég efast um að svona drönglar hafi nokkurn tíma brotnað af og lent á fólki eða ofan í barnavagni en manni er samt ekki um sel að labba undir þessu. Ef svona ís-spjót myndi detta á mig, þá færi það innum hausinn og útum ilina, einsog einhver heimsskautaútgáfa af shiskabob.




Þegar við Jónína rúntuðum í gegnum umferðarteppuna í morgun fattaði ég að þriggja bílakyns hluta frá eitís er sárt saknað:

a) Stuðarar. Ég vil hafa mína stuðara svarta og úr plasti takk. Ég vil ekki að stuðarinn sé falinn undir þreföldu lagi af lakki í sama lit og restin af bílnum. Kommon, meiraðsegja sportbílar voru með klessubíla stuðara úr ódýru plastlíki í gamladaga.

b) Svona límmiðar á hliðinni á bílnum. Svona bílatattú. Stórt tússpenna-krot-skraut eftir endilöngum bílnum. Ég vil þannig aftur. Eða kannski bara eina flotta gradient rönd sem fer úr bleiku í appelsínugult. Mér finnst bara bílar með eldhúsrúllumyndskreytingu límdu á hliðina geðveikt flottir.

c) Litlu bílarnir með kýrauganu. Hvaða tegund var það?

föstudagur, janúar 12, 2007

Mússí múss

Ég er svo svakalega kósý og sæll í snjóhríð og joggingbuxum. Yfir mér liggur bleik dula af kærleik og elskulegheitum og mig langar að ausa smá hrósi yfir vini og internetvandamenn. Því það er nú föstudagur og svona. Hérna eru í stafrófsröð mínir uppáhalds, fyndnustu og duglegustu-að-pósta blaðrarar á netinu:

Annie er sniðug og er með annan fótinn á Íslandi. En þar sem hún er útlensk get ég nokkurn veginn sagt hvað sem ég vil um hana. Til dæmis að uppáhalds maturinn hennar sé fiskafóður og mjólk.

Maður fer ekki rólegur inní helgina fyrr en maður hefur lesið "Heitt og Kalt" hjá Árna. Talandi um það, þá er listi vikunnar ekki enn kominn inn...Búhú.

Skilnaðir, tískuslys og tannlausi bolabíturinn í klofinu á Britney Spears. Dröfn gerir því betri skil en nokkur annar slúðurberi. Ef hún skrifar ekki um það, þá er ekkert varið í það.

Eftir að hafa verið internetvinir í svona fimm áratugi hitti ég loksins Halla í eigin persónu á Barnum í gær. Það voru fagnaðarfundir, krumlukreist og raddir heyrðar í fyrsta sinn. Halli er fyndnastur og ég er viss um að allir hérna lesa hann og þarf því ekkert að málalengja um hann.

Arkitektinn án týpugleraugnanna, Jónína, er með glæsilegt ljósmyndablogg. Enginn litríkur snigill eða nammiklætt barn er óhult fyrir óblikkandi ljósopi hennar.

Katrín er hinn mennski bleikur og án vafa jákvæðasti badmintonspilari Íslands. Alltaf fer maður í gott skap við að lesa punkturis.

Broddborgari Liverpúl er Kjarri. Hann er sprenghlægilegur og er með stóra mynd af lárperu á blogginu sínu.

Krilli er yndislegur ungur maður sem bloggar á gamlan papírus og er að reyna að fita sig. Ostborgari handa honum.

Svenni er lunkinn, sniðugur og flinkur. Góðir linkar og skemmtilegar sögur, skrifað af frábærri blöndu af hressa stráknum og fúla gæjanum. Ugla í tré alveg hreint.

Í linkalistanum til hægri eru fullt af frábærum bloggurum sem ég nennti ekki að skrifa um (djók). Heimsækið þá alla og segið að ég sendi ykkur. Góða helgi.

Draumadís á föstudegi 21


Norma Jean Baker

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Ég og hjartveikin.

Ég heiti Björn Þór Björnsson, árið er 2002 og í dag mun læknir gefa mér fjölmörg raflost í hjartað.

Um það bil ári fyrr byrjaði ég að fá kvíðaköst sem fylgdu hjartsláttartruflanir. Ef til vill komu kvíðaköstin útaf hjartsláttartruflununum en hvaðeina. Þetta gekk þennan vítahring, ég fékk ónot í hjartað, varð dauðskelkaður og fékk þá meiri ónot í hjartað osfv. Á skömmum tíma var ég orðinn titrandi kvíðabelgur með slæmt hjarta, einsog hamstur í hristu búri.

Sársaukinn í hjartanu var hrikalegur. Kannski ekki beint sársaukafullur einsog að klemma hnúana í bílhurð, meira svona "núna deyrðu" ógnvekjandi. Ég bókstaflega fann hjartað kreppast saman og svona sickening nísting djúpt innan í mér. Stundum var þetta svo slæmt að ég gat ekki sofið, engdist um og beið dauðans. Ég varð þunglyndur og ofsalega lífshræddur. Ég hélt í alvörunni að ég myndi deyja á hverri stundu. Eitt skiptið var ég í bíó þegar ég fékk mjög slæmt kast. Ég þurfti að stökkva út úr salnum því innan í mér var lítill indíáni að hamra á trommum án þess að halda nokkrum takti. Ég varð að láta líta á þetta.

Sem betur fer vinnur mamma á læknastofu þannig að ég fékk beinan aðgang að topp læknum. "Ömm ég fæ svona sting í hjartað, kvíðaköst og hjartsláttartruflanir..." sagði ég við lækninn. Hann tók úr mér blóð, mældi mig upp og niður, setti mæla hingað og þangað og læt mig hlaupa á færibandi. Þeir fundu ekkert að mér. En köstin og stingirnir og sársaukin voru samt til staðar og ég fékk þann kæk að vera alltaf að finna púlsinn minn á úlnliðnum og á hálsinum auk þess að kreista brjóstið á mér. Ég er enn með kækinn og er mýkri öðru megin á bringunni af öllu nuddinu og klípinu.

Svo settu þeir svona sogblöðkur á mig sem voru tengdar í upptökutæki sem var strengt utan um mittið á mér. Það drasl þurfti ég að drösla með mér út um allt. Fannst það reyndar nokkuð fyndið og leyfði öllum að sjá sem vildu. Tækið tók upp hjartsláttinn minn í sólarhring og svo var útprentun á hljóðinu analyseruð af læknum. Ekkert.

Ég var farinn að vera fastagestur í hinum ýmsu deildum spítalana. Allskyns prófanir og rugl. Aldrei fundu þeir neitt en alltaf fékk ég köstin og stingina þess á milli. Ég var kominn með nóg. Þessi sársauki var ekki ímyndun, fjandinn hafi það. Ég fann eldingu í hjartanu og stingi leiða út um æðar og niður vinstri höndina. Einn daginn myndi ég detta niður dauður og þá myndu þau sjá. Ég fór að dreyma minn eigin dauða.

Ég fékk pillur sem áttu að virka gegn svona kvíða og þær fór ég að bryðja. Svo kom að því að ég fékk versta kastið mitt. Ég brunaði niður á slysavarðstofuna. Ég óð um biðstofuna í algeru panic kasti, kreistandi bringuna. Ég fékk svoleiðis stingina og bringuherpinginn að ég saup kveljur og var fullviss um að ég myndi kveðja þetta líf í þessari biðstofu, innan um fingurbrotin börn og verkamenn með nagla í ilinni. Ég tók þessar pillur aldrei aftur.

Á endanum gáfust læknarnir upp og sögðu að fyrst þetta væru hjartsláttartruflanir, þá væri eins gott að búa þær til og sjá hvað væri að gerast inni mér. Ég var lagður inn og undirbúinn fyrir eina af mest ógnvekjandi rannsóknum sem lögð er á fólk.

Þau settu æðalegg í handabakið á mér og mér voru gefin róandi lyf. Ég lá í nokka tíma í stofu með nokkrum gömlum hjartasjúklingum sem voru annaðhvort sofandi eða dauðir. Þetta var snemma um morguninn og það var dimmt og blautt úti. Svo kom sjúkraliði sem keyrði mig út í rúminu mínu í lyftu og inn í dimma stofu. Allt í kringum mig glitti í stórar málmgræjur sem minntu einna helst á stillansa og bruggtæki. Hjúkrunarkona setti svona gubbiskál úr pappír hjá mér og lagði verkfæri niður. Svo kom læknirinn og útskýrði fyrir mér með róandi tón að slöngu yrði komið fyrir innan í mér í gegnum nefið og svo myndi hann gefa mér raflost til að stýra hjartslættinum. Semsagt að framkvæma hjartsláttartruflanir. Athugið að ég var svo sannfærður um að ég væri hjartasjúklingur að þrátt fyrir að aldrei hafi neitt fundist að mér var ég að láta trufla gang hjartans míns í mjög níðingslegri aðgerð. Við hliðina á rúminu var svona endurlífgunargræja einsog í bíómyndunum.

Læknirinn tók fram langa og mjóa slöngu með rúnuðum járn-enda. Hjúkrunarkonan smurði slönguna með deyfandi kremi og svo var henni troðið ofan í mig í gegnum nösina. "Kyngdu" sagði hún meðan ég barðist við köfnunartilfinninguna og gag-reflexið. Slöngunni var rennt niður þangað til hún staðnæmdist við vélindað. Afgangurinn af slöngunni var límdur við kinnina á mér. Allskyns dópi var pumpað í mig gegnum æðalegginn. Læknirinn stóð fyrir aftan mig og því sá ég ekkert nema dimmt herbergið fyrir framan mig og slöngu ganga inn í mig. Hann hleypti á strauminum.

Tilfinningunni er ekki beint hægt að lýsa, öðruvísi en að ég var að fá rafmagn í hjartað. Ég herptist allur saman og andaði hratt með augun galopin. ég fékk blóðbragð í munninn og þrátt fyrir að það væri vont vegna æðaleggsins, kreppti ég hnefana eins fast og ég gat. ég kipptist við við hvert rafstuð. Þarna fékk ég að kynnast alvöru hjartsláttartruflunum. Takturinn í raflostunum var óreglulegur og ofbeldisfullur. Ég bað þá um að hætta, en það þurfti að klára þetta. Nokkrum lostum síðar var mér trollað aftur út og upp í herbergi. Ég var með svo mikinn náladofa í andlitinu að ég gat ekki talað. Ég lá uppgefinn og tómur restina af deginum og svaf betur en ég hafði gert í langan tíma innan um gömlu kallana sem voru annaðhvort sofandi eða dauðir. Niðurstaðan úr þessari martröð var að ég væri stálsleginn ungur maður og að það væri ekkert að mér.

Eftir þetta sagði ég bara fokkitt. Það var ekkert að mér. Þetta var bara dæmi um það að heilinn sé sterkari en líkaminn. Þetta var bara ímyndun býst ég við. Það var einsog að þessi aðgerð hafi verið löðrungurinn í andlitið sem ég þurfti. Þegar kvíðinn fór að gera vart við sig eftir þetta, sagði ég bara "shut up" einsog Kevin í Home Alone þegar hann vann bug á hræðslunni við kyndiofninn í kjallaranum. Smám saman varð kvíðinn minni hluti af lífi mínu. Ég leitaði líka til grasalækna og nálastunguliðs og það hjálpaði (þótt það sé ultimate lyfleysu meðferðin). Ég lærði að hafa stjórn á heilanum í mér og fór að geta lifað eðlilega.

Ég er ekki alveg laus við þetta í dag. Þegar ég verð þunnur fæ ég stundum ónot og aðsvifstilfinningu og ég fæ einstaka kvíðakast en ég mundi segja að ég væri fínn núna. Ég náði reyndar að þróa með mér rosalega fóbíu fyrir að sitja í mannmergð í myrkri þannig að bíóferðir, leikhús og slíkt... forget it.

Þetta var semsagt sagan af því þegar ég var hjartasjúklingur og fékk raflost í hjartað. Ég mæli ekki með því.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

mánudagur, janúar 08, 2007

Einn daginn kemur fálki og tekur þig.

Eins sætur og kisinn hennar Jónínu er, þá getur hann verið alger skepna. Þegar ég kom til baka eftir stutta ferð í matvörubúð áðan beið mín tættur og blóðugur smáfugl við útidyrahurðina. Fuglaelskandinn ég steig hægt upp tröppurnar með harmstafinn í kverkunum. Þegar ég staðnæmdist við eldhúsið sat Jónína þar með kisa í fanginu og klappaði honum, grunlaus um morðið sem hafði verið framið rétt í þessu. Kötturinn lá makindalegur með bumbuna út í loftið og sleikti útum með fuglablóð í veiðihárunum. Hann horfði á mig með svipnum sem ríkar konur setja upp þegar húshjálpin skrúbbar klósettið þeirra. Blanda af velmegun, snobbi og storkun. "Hvað? Þú getur ekkert gert. Maur."

Ég sneri til baka. Ég setti greyið litla í tóman sykurpoka og henti honum í ruslið. Ég gekk aftur inn í eldhús og át grjónagrautinn minn í kyrrþey."Er kisinn minn ekki sætur?" Spurði Jónína í sakleysi sínu. "jú" svaraði ég. "Það er hann svo sannarlega".

laugardagur, janúar 06, 2007

Ég hef verið upptekinn undanfarið...

Og hérna er það sem ég hef verið að gera:



Komið öll á opnun 120 ára afmælissýningar Landsbankans á milli 13:30 og 18:00 í dag, laugardag. Rosalega flott dót, Björgólfur, snittur og bús. Ég verð þarna að rifna af stolti yfir líkaninu mínu* og öllu því sem ég hjálpaði til við að redda þarna. Sjáumst!

*Líkanið er af miðbænum þegar 12 hús (m.a. Landsbankahúsið) brunnu til kaldra kola árið 1915.

föstudagur, janúar 05, 2007

Draumadís á föstudegi 20


Lily Allen
(hlaut að koma að því)